138. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2010.

stöðugleikasáttmálinn.

[16:06]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Stöðugleikasáttmálinn hefur reynst mikilvæg kjölfesta í víðtæku samráði og samstarfi aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda á þeim erfiðu tímum í efnahagslífi þjóðarinnar sem við nú göngum í gegnum. Ég leyfi mér að fullyrða að aldrei fyrr hefur samstarf hins opinbera við þá aðila sem að sáttmálanum standa verið jafnvíðtækt og -náið og á grundvelli þeirra markmiða og vegna þeirra aðgerða sem þar voru sett fram. Hefur okkur því miðað vel áfram. Það er ekki síst vegna samtakamáttar þessara aðila, atvinnuveganna, launþegasamtakanna, sveitarfélaganna og stofnana ríkisvaldsins, sem okkur hefur tekist að snúa við því fordæmalausa hruni sem blasti við íslensku efnahagslífi fyrir rúmu ári.

Ég tek undir með formanni Landssambands smábátaeigenda um að harkaleg viðbrögð Samtaka atvinnulífsins eru ekki í neinu samræmi við tilefnið ef þeir segja sig frá stöðugleikanum vegna heimildarákvæðis um að leyfa veiðar á 2.000 tonnum af skötusel á næstu tveimur fiskveiðiárum, heimild sem beitt verður af varfærni og í samráði við Hafrannsóknastofnun. (Gripið fram í.) Ekkert er fjallað um skötusel í stöðugleikasáttmálanum og þar gefur ríkisstjórnin engin fyrirheit um þau mál. Það er því vandséð hvernig skötuselsmálið geti leitt til þess að Samtök atvinnulífsins segi sig frá stöðugleikasáttmálanum og telji sig, eins og þeir sjálfir segja, óbundin með öllu af ákvæði hans. Enn fráleitara er að halda því fram að stöðugleikasáttmálanum hafi verið slitið af hálfu ríkisstjórnarinnar með samþykki Alþingis á skötuselsfrumvarpinu. Það er beinlínis út í hött.

Þá er mikilvægt að skýrt komi fram að ríkisstjórnin hefur ítrekað rétt fram sáttarhönd í þessu máli. Hún bauð m.a. að ákvæðum laganna yrði ekki beitt fyrr en á næsta fiskveiðiári að lokinni endurskoðun fiskveiðstjórnarkerfisins. Allt kom fyrir ekki, samningsvilji LÍÚ var enginn. Réttkjörin stjórnvöld geta auðvitað ekki sætt sig við slíka kúgun af hálfu sérhagsmunaaðila. Hér eftir sem hingað til er ríkisstjórnin hins vegar reiðubúin til samstarfs og sátta. Fyrri tilboð okkar standa enn vilji LÍÚ og Samtök atvinnulífsins taka í okkar útréttu sáttarhönd.

Stöðugleikasáttmálinn snýst ekki um skötusel. Hann snýst um frið á vinnumarkaði, samstarf um leiðir í ríkisfjármálum, leiðir til að bæta stöðu skuldsettra heimila, leiðir til að auka atvinnu og tryggja endurreisn efnahagslífsins. Í samræmi við stöðugleikasáttmálann stefnum við enn að lækkun verðbólgu, lækkun vaxta og afnámi gjaldeyrishafta samhliða styrkara gengi íslensku krónunnar. Við ætlum okkur að ná endum saman í ríkisfjármálum, stokka upp í ríkiskerfinu, hagræða og snúa samdrætti í þjóðarframleiðslu í hagvöxt á ný. Við ætlum okkur enn að sigrast á erfiðleikum og snúa vörn í sókn í samræmi við fyrirliggjandi efnahagsáætlun í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og í sátt við umheiminn.

Því verður ekki trúað, virðulegi forseti, að Samtök atvinnulífsins ætli að segja sig frá samstarfi um þessi mikilvægu markmið. Það eru ekki bara Samtök atvinnulífsins sem standa að stöðugleikasáttmálanum, það eru líka samtök verkalýðshreyfingarinnar, níu samtök alls standa að stöðugleikasáttmálanum, Bændasamtökin, samtök sveitarstjórna, samtök opinberra aðila, í verkalýðshreyfingunni og á einkamarkaði.

Af því að hv. framsögumaður sagði að allir þessir aðilar væru búnir að snúa við okkur baki er það auðvitað ekki rétt, enda höfum við verið í sambandi við alla þessa aðila í dag og það hefur hvergi komið fram nema hjá Samtökum atvinnulífsins að þeir vilji segja sig frá þessum sáttmála. (Gripið fram í.) Við höfum átt fund með forustu Samtaka atvinnulífsins í dag, það var ágætur fundur, en hann kom mér um margt á óvart, hvað þeir ætla að ganga langt í þessu efni og greinilega að fórna meiri hagsmunum fyrir minni í þessu máli.

Ríkisstjórnin vill áfram vinna á grundvelli stöðugleikasáttmálans og ég hvet alla aðila hans til að gera slíkt hið sama. Stöðugleikasáttmálinn er grundvöllur formlegs samráðs ríkisstjórnar, aðila vinnumarkaðarins, Bændasamtaka og Sambands íslenskra sveitarfélaga um öll brýnustu úrlausnarefni samfélagsins vegna þeirra efnahagslegu hremminga sem við nú göngum í gegnum. Enginn ábyrgur aðili getur leyft sér að segja sig frá slíku þjóðhagslega mikilvægu samstarfi eða reynt að misnota það til að verja sérhagsmuni einstakra hópa innan sinna vébanda.