138. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2010.

stöðugleikasáttmálinn.

[16:16]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Ég hef ekki verið þingmaður lengi en stóran hluta þess tíma sem ég hef setið á þingi hefur umræða um ákveðið mál verið fyrirferðarmikil — Icesave-málið. Í þeirri umræðu hefur þeim flokkum og þeirri hreyfingu sem skipa minni hlutann á þinginu orðið tíðrætt um að ríkisstjórnin þurfi að standa í lappirnar og að við eigum ekki að láta kúga okkur til hlýðni við frekjudallana í Bretlandi og Hollandi.

Í gær fór hér fram atkvæðagreiðsla um annað mál sem kennt er við skötusel. Í því stóðu ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir svo sannarlega í lappirnar gegn atvinnufrekjudöllunum sem hótuðu og hafa nú formlega rift stöðugleikasáttmálanum fyrst ríkisstjórnin lúffaði ekki bara fyrir kröfum þeirra.

Nú eru hinir stjórnarandstöðuflokkarnir ekkert ánægðir, loks þegar ríkisstjórnin stendur í lappirnar. Af hverju þessi heift? Það er vegna þess að frumvarpið sem varð að lögum í gær vísar veginn í réttlætisátt.

Svo allrar sanngirni sé gætt er rétt að taka fram að Samtök atvinnulífsins settu fyrirvara við stöðugleikasáttmálann vegna sjávarútvegsins eins og kom fram í máli hv. málshefjanda, Unnar Brár Konráðsdóttur.

Hvaða sáttafarvegur var þetta sem um ræddi? Jú, í fyrrahaust var skipuð sáttanefnd um fiskveiðistjórn með fulltrúum allra sem að borðinu koma. LÍÚ ákvað hins vegar í október eftir aðeins tvo fundi í nefndinni að taka ekki frekari þátt í störfum hennar. Það var nú öll sáttin sem var í boði á þeim bænum.

Talsmenn Samtaka atvinnulífsins tjá sig gjarnan fyrir hönd atvinnulífsins í heild. Þeir ættu kannski að venja sig af því vegna þess að innan samtakanna eru einungis ríflega 2.000 fyrirtæki af þeim 31.000 fyrirtækjum sem starfa í landinu. Að vísu eru þetta stór fyrirtæki en þó eru eingöngu um 30% ársverka á íslenskum vinnumarkaði unnin innan þeirra, þ.e. svipaður fjöldi og vinnur hjá hinu opinbera. Töluvert fleiri vinna við aðra atvinnustarfsemi en þá sem er innan Samtaka atvinnulífsins.

Frú forseti. Síðustu mánuði hef ég ekki séð ástæðu til að styðja þessa ríkisstjórn. Mér hefur ekki fundist hún standa sig neitt (Forseti hringir.) sérstaklega vel og hef orðið fyrir vonbrigðum, en í þessari baráttu styð ég hana heils hugar.