138. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2010.

stöðugleikasáttmálinn.

[16:18]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ríkisstjórnin segir í dag að stöðugleikasáttmálinn snúist ekki um skötusel. Það er alveg hárrétt hjá henni. Stöðugleikasáttmálinn snýst nefnilega ekki um skötusel, heldur snýst hann um það prinsipp hvort orð skuli standa. Það er algjör útúrsnúningur að segja að stöðugleikasáttmálinn komi ekki m.a. inn á skötusel og fiskveiðistjórnarmálin því að í október lýsti ríkisstjórnin því sérstaklega yfir varðandi framkvæmd stöðugleikasáttmálans að engin breyting hefði orðið um þann sáttafarveg sem ætti að setja endurskoðun fiskveiðistjórnarinnar í.

Hvað kom á daginn? Tveimur vikum síðar var skötuselsmálið lagt fram. Við vitum núna að það hefur verið afgreitt. Enn hefur ekki verið svarað þeirri spurningu af hverju ekki var hægt að setja skötuselsmálið í sáttafarveginn umrædda. Nei, slitin á stöðugleikasáttmálanum snúast nefnilega um þau prinsipp hvort eitthvert mark sé takandi á yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar og um það hvort núna í framtíðinni og þá síðar á þessu ári verði hægt að kalla ríkisstjórnina að borðinu við gerð nýrra kjarasamninga og það verði hægt að treysta henni. Mér er til efs að svo sé.

Það merkilega við deiluna á vinnumarkaði er að núna ríkir bullandi vantraust. Alla jafna og í gegnum tíðina hefur vantraustið verið á milli aðila vinnumarkaðarins, þ.e. launþega og atvinnurekenda. En hvernig er þetta núna? Núna er vantraustið — sem er bullandi — í boði ríkisstjórnarinnar, það er á milli atvinnurekenda og launþegasamtaka annars vegar og ríkisstjórnarinnar hins vegar. Það er ekki líðandi.

Uppnámið núna er algjörlega óþarft á þessum tímum. Ábyrgðarkennd aðila vinnumarkaðarins hefur verið mikil, það hefur reynt á þolrifin á þeim bænum, en núna er hins vegar kominn tími til að ríkisstjórnin vakni og horfist í augu við eigin ábyrgð. Fólkið í landinu vill vinnu og aðgerðir og það vill ríkisstjórn sem sýnir samstöðu og greiðir götu tækifæra til atvinnusköpunar. Ef ríkisstjórnin gerir það fær hún (Forseti hringir.) minn stuðning.