138. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2010.

stöðugleikasáttmálinn.

[16:21]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér í dag stöðugleikasáttmálann og þá ákvörðun Samtaka atvinnulífsins að segja sig frá honum með vísan til frumvarps sem samþykkt var í þinginu í gær um stjórn fiskveiða, sérstaklega bráðabirgðaákvæðis til tveggja ára um heimild til að auka kvóta í skötusel um væntanlega nokkur hundruð tonn. (EKG: 2.000 tonn.) (Gripið fram í.) Skötuselsákvæðið felur í sér tveggja ára heimild til sjávarútvegsráðherra um að auka megi kvóta í þessari tegund sem fundist hefur í miklu magni og dreifst víðar á undanförnum missirum, m.a. á Vestfjarðamiðum þar sem skötuselurinn hefur m.a. komið á land sem meðafli, einkum með grásleppu. Kunnugir telja að þessu hafi líka fylgt mikið brottkast þar sem þessum verðmæta fiski hafi verið hent í umtalsverðu magni vegna skorts á kvóta. Slík sóun á verðmætum á að kalla á viðbrögð stjórnvalda, en fyrir liggja yfirlýsingar hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að farið verði af mikilli varfærni með þetta heimildarákvæði og í samráði við Hafrannsóknastofnun. Jafnframt er gerð mikilvæg og virðingarverð tilraun til að hverfa frá gjafakvótakerfinu með því að opna fyrir víðtæka aðkomu fiskiskipa að þessum viðbótarkvóta á jafnræðisgrundvelli og á viðráðanlegum kjörum, en veiðigjaldið renni í sameiginlegan sjóð landsmanna.

Það liggur fyrir að engin sátt er um kvótakerfið í þessu samfélagi eins og það er byggt upp í dag. Meiri hluti þjóðarinnar, mikill meiri hluti, um 70% samkvæmt mörgum könnunum, allt upp í 90% eins og í skoðanakönnun Fréttablaðsins í ársbyrjun 2008, vill breytingar á þessu kerfi og kallar m.a. eftir því að eignarhald þjóðarinnar á fiskveiðiauðlindinni verði betur tryggt, aukið jafnræði varðandi úthlutun kvóta og möguleika til sjósóknar. Þetta mál er í stjórnarsáttmálanum. Þetta er kjarnamál ríkisstjórnarinnar og það er í hæsta máta óeðlilegt og í raun hreint tilræði við lýðræðið að hagsmunasamtök eins og LÍÚ skuli berjast með oddi og egg gegn löngu tímabærum úrbótum á kerfi sem þjóðin hefur sjálf gefið falleinkunn. Það eru framtíðarhagsmunir okkar allra, líka útgerðarmanna, að ná sátt um fiskveiðistjórnarkerfið til framtíðar. Það er vel hægt. Það eiga allir að koma að því verki af fullum heilindum.