138. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2010.

stöðugleikasáttmálinn.

[16:25]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Það er eins og sumir hafi ekki áttað sig á því að hér urðu ríkisstjórnarskipti í vor og þá var einnig kosið. Það var líka kosið á grundvelli stefnumiða sem þar voru lögð fram. Í sjávarútvegsmálum var verkefnaflokknum skipt í tvennt, annars vegar aðgerðir sem skyldi ráðist í svo fljótt sem verða mætti og hins vegar framtíðarskipun fiskveiðistjórnarmála sem lögð skyldi í sérstaka endurskoðunarnefnd sem skipuð var til þeirra verka. Hún skyldi fást við framtíðarskipan þeirra mála. Í þann starfshóp áttu menn kost á að skipa fulltrúa sína, gerðu það flestir og sumir lögðu reyndar áherslu á að komast þar að, fleiri en til stóð. Reynt var að verða við óskum allra sem vildu taka þátt í því starfi.

Þau verkefni sem áhersla var lögð á að hrinda þegar í stað úr vör komu fram í því frumvarpi sem var samþykkt og gert að lögum í gær, en þar mátti nefna að auðvelda og koma til móts við frístundaveiðar, atvinnuveiðar tengdar ferðamennsku og ferðaþjónustu. Það er mjög ánægjulegt að það skuli hafa orðið að lögum í gær. Sömuleiðis var samþykkt að takmarka flutning aflamarks á milli ára þannig að meira af fiski kæmi inn á veiðiheimildir þessa árs. Þá var kveðið á um vinnsluskyldu á uppsjávarfiski til að tryggja enn betur verðmæti hér.

Við höfum líka lagt áherslu á að draga úr útflutningi á gámafiski. Það gleðilega er að útflutningur á gámafiski hefur dregist saman og jafnframt hefur hlutfallsleg vinnsla aukist hér á landi.

Það að ætla að tengja þetta skötuselsmálinu einu er úr lagi. Það mál var kynnt. Áform ráðherra voru kynnt þegar í sumar, á fyrsta fundi svokallaðrar endurskoðunarnefndar var kynnt hvert verkefni þeirrar nefndar væri og síðan verkefni sjávarútvegsráðuneytisins. Það er því algjörlega fráleitt af Samtökum atvinnulífsins að segja sig frá samstarfsyfirlýsingu og sáttmála (Forseti hringir.) um samstarf ríkisstjórnarflokkanna og Samtaka atvinnulífsins um stöðugleikasáttmála af þessari ástæðu. (Forseti hringir.) Ég harma að Samtök atvinnulífsins skuli vera svo óábyrg að segja sig frá þessu samkomulagi á grundvelli (Forseti hringir.) nokkurra tonna af skötusel. (Gripið fram í.)