138. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2010.

stöðugleikasáttmálinn.

[16:30]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það hefur verið hrakið hér með öllu að það hafi verið einhver innstæða fyrir þeirri undrun sem hæstv. ráðherra lýsti í gær, að það komi á óvart að SA líti svo á að ríkisstjórnin hafi sagt upp stöðugleikasáttmálanum gagnvart þeim. Vissulega er það rétt að það er ekkert minnst á skötuselinn sjálfan í stöðugleikasáttmálanum, en það er hins vegar hártogun að halda því fram með þeim hætti sem hæstv. forsætisráðherra gerir hér að þetta mál sé henni óviðkomandi. Það var fjallað um með hvaða hætti ætti að fara í endurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu og það kom fram fyrirvari SA. Þess vegna er rétt að hæstv. forsætisráðherra upplýsi okkur um hvers vegna ríkisstjórnin velji núna í gær og dag að keyra í gegn mál sem vitað er að mikið ósætti er um. Hvers vegna er það gert? Hvers vegna er komið fram af þessu offorsi, svo ég geri orð forseta ASÍ að mínum? Hann sagði í gær að ríkisstjórnin færi fram af offorsi í þessu máli. Hvers vegna velur ríkisstjórnin alltaf að fara leið ófriðarins? Ég skil ekki hver tilgangurinn er hjá ríkisstjórninni.

Maður verður talsvert hugsi út af orðum hæstv. landbúnaðarráðherra hérna áðan. Hvers vegna gerði ríkisstjórnin þennan stöðugleikasáttmála? Var það einfaldlega auglýsingatrix til að láta líta út fyrir að ríkisstjórnin vildi hafa hér sátt? Hvers vegna stendur ríkisstjórnin ekki við sína eigin samninga? Hvers vegna kemur ríkisstjórnin ekki fram við samningsaðila sína í stöðugleikasáttmálanum af virðingu og reynir að skilja sjónarmið þeirra sem voru sérstaklega bókuð þegar stöðugleikasáttmálinn var gerður?

Mér er algjörlega fyrirmunað að skilja þetta. Ég skil ekki hvers vegna ríkisstjórnin velur ófriðinn þegar hún getur valið friðinn. Við þurfum ekki á þessu að halda hér í þessu landi. Við þurfum ríkisstjórn sem skilur að það er mikilvægt (Forseti hringir.) að halda hér frið.