138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Hér hafa styrkjamál og skötuselur verið til umfjöllunar. Ég tek undir það að sjálfstæðismenn ættu að sjá sóma sinn í að birta öll framlög til flokksins, ekki bara þau sem hafa borist til aðalskrifstofu. Við eigum enn eftir að sjá hverjir styrktu félögin úti um land. Hverjir styrktu félagið á Ísafirði, í Vestmannaeyjum, á Akureyri, í Hafnarfirði og Reykjavík, svo einhverjir útgerðarbæir séu nefndir?

Tregðu flokksins til að gefa upp hverjir styrktu flokkinn má kannski skoða í samræmi við andstöðu hans í þessu skötuselsmáli. (Gripið fram í.) Sjálfstæðisflokkurinn er í prinsippinu á móti því að þeir sem nýti auðlindir þjóðarinnar greiði fyrir það sanngjarnt gjald á tímum efnahagsþrenginga.

Öllum landsmönnum er orðið morgunljóst hvers konar tangarhald Landssamband íslenskra útvegsmanna hefur á, ekki bara Sjálfstæðisflokknum heldur einnig Samtökum atvinnulífsins. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins viðurkenndi í sjónvarpi í gær að samtök þeirra hefðu ekki verið svona á móti þessu frumvarpi ef viðbótin hefði runnið til þeirra sem í dag fá úthlutaðan kvóta. Að sjálfsögðu ekki, sagði framkvæmdastjórinn. [Hlátur í þingsal.]

Það er svo skrýtið en það gleymist oft að Samtök atvinnulífsins eru ekki bara hagsmunasamtök útvegsmanna. Það eru um 190 útgerðir í LÍÚ og þar af leiðandi í Samtökum atvinnulífsins en yfir 2.100 aðrir atvinnurekendur eru líka í þessum sömu samtökum. Það eru atvinnurekendur í ferðaþjónustu, fjármálum, þar eru Samtök verslunar og þjónustu, Samtök iðnaðarins og fleiri samtök.

Ég spyr atvinnurekendur í öðrum geirum: Eru þeir sammála Samtökum atvinnulífsins um þá vegferð sem framkvæmdastjórinn er að fara í? (Gripið fram í: Ef það er …) Hafa þessir sömu aðilar sömu hagsmuna að gæta við að setja sátt á vinnumarkaði í uppnám út af örfáum tonnum í skötusel sem kannski verða ekki veidd? Eða eru aðrir atvinnurekendur í landinu sammála um að þeir sem njóti auðlinda eigi að greiða fyrir þá nýtingu? Ef svo er þarf að endurskoða raforkulögin, ef ekki fleira.

Ég hvet aðra atvinnurekendur til umhugsunar um þann leiðangur sem Samtök atvinnulífsins eru að toga önnur samtök atvinnurekenda í, yfir 2.000 fyrirtæki með yfir 50.000 ársverk sem eru á bak við aðra atvinnurekendur (Forseti hringir.) en Landssamband íslenskra útvegsmanna.