138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að ræða um hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra og beina orðum mínum til forseta. Nú hefur hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra tvær vikur í röð afþakkað eða í raun neitað því að koma í þingið og ræða við formann Framsóknarflokksins utan dagskrár um afskriftir í bönkum, afskriftir milli gömlu og nýju bankanna, afskriftir í bönkunum og þá um leið að sjálfsögðu til heimila.

Frú forseti. Það er með öllu ólíðandi að ráðherrann skuli leyfa sér að neita að koma hingað í þessa umræðu þegar þetta stóra mál brennur mjög á þjóðinni, fyrirtækjum og okkur hér í þinginu. Til að bíta hausinn af skömminni ætlar hæstv. ráðherra efnahags- og viðskiptamála nú að skýla sér á bak við nefnd um erlenda fjárfestingu til að þurfa ekki að taka ábyrgð á því máli er snýr að Magma Energy. Það er alveg ljóst að ráðherrann getur sagt nei ef hann vill. Nefndin er búin að segja að hún geti ekki stoppað þetta þannig að það er rangt af ráðherranum að reyna að skýla sér á bak við nefndina í þessu máli.

Frú forseti. Ég ætla að biðja virðulegan forseta að sjá til þess að efnahags- og viðskiptaráðherra mæti hér þegar hann er beðinn um það af þinginu. Hann er í vinnu hjá okkur. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Síðan vil ég, frú forseti, aðeins segja það að ég hef miklar áhyggjur af orðum hv. þm. Helga Hjörvars sem féllu hér áðan þegar hann talaði um að ganga til verka í sjávarútvegsmálum. Er nú ekki ríkisstjórnin búin að gefa upp nóg af óljósum boltum varðandi sjávarútvegsmál? Ætlar formaður efnahags- og skattanefndar að ganga fram fyrir skjöldu eins og hann er búinn að gera og segja: Nú, jæja, það er best að við förum í að leggja sjávarútveginn endanlega í rúst? Komið þið bara, það eru skilaboðin sem hv. þingmaður sendi hér áðan fram í þingsal: Varið ykkur, útgerðarmenn, varið ykkur, starfsfólk í fiskvinnslu, varið ykkur, þessar tugþúsundir sem vinna í sjávarútveginum, nú er Samfylkingin komin til valda og nú er okkur að mæta. Það voru skilaboðin.

Mér þætti vænt um að vita hvort hv. þingmaður og samflokksmenn hans hugsi nákvæmlega eins um ASÍ (Forseti hringir.) sem virðist vera deild í flokki hans.