138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Ég fagna af heilum hug þeirri umræðu sem upp er komin um fjármál stjórnmálaflokka. Sem kunnugt er er vinnuhópur að störfum sem fjallar um breytingar á lögum um fjármál stjórnmálaflokka. Þetta er gert að tilmælum Grecos sem rak augun í það að hér væri ýmislegt að.

Niðurstaða þessa vinnuhóps virðist hins vegar sú að fjórflokkurinn ætlar áfram að sammælast um að moka hundruðum milljóna króna á hverju ári í eigin stjórnmálaflokka, peningum sem er úthlutað með algjöru ójafnræði. Það á áfram að hvíla mikil leynd yfir framlögum einstaklinga til stjórnmálaflokka. Framlög lögaðila verða áfram heimiluð.

Mig langar að brydda upp á nýmælum í þessu máli. Það fyrsta er einfaldlega að framlög lögaðila til stjórnmálaflokka verði bönnuð. Lögaðilar hafa ekki kosningarrétt á Íslandi og þeir eiga ekki að skipta sér af fjármögnun stjórnmálaflokka. Punktur.

Það á jafnframt að nafngreina öll einkaframlög umfram 20.000 krónur, það er bara algjörlega sjálfsagt mál að nafngreina þá.

Opinber framlög eiga ekki að miðast við stærð stjórnmálaflokka eða einhverja hundruða milljóna krónu tölu sem stjórnmálaflokkarnir sjálfir ákveða. Opinber framlög eiga að miðast við að hægt sé að greiða einum framkvæmdastjóra laun, einum aðstoðarmanni laun, leigu fyrir hóflegt skrifstofuhúsnæði og fundaraðstöðu og kannski hálft stöðugildi í hverju kjördæmi utan höfuðborgarsvæðisins.

Þannig er fjármununum skynsamlega varið. Þannig er ekki spillingar„element“ í framlögum til stjórnmálaflokka af skatti almennings. Núna úthluta stjórnmálamenn sínum eigin flokkum hundruðum milljóna sem svo renna í að auðvelda þeim að ná endurkjöri. Það er ósiðlegt.

Að lokum, í tilefni þessarar umræðu fagna ég orðræðu Samfylkingarinnar í þessu máli og vona að hún lagi sig að tillögum Hreyfingarinnar í vinnuhópnum. Í tilefni umræðunnar legg ég svo til að dregið verði frá gluggunum. [Hlátur í þingsal.]