138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

dagskrár- og kvikmyndagerð hjá Ríkisútvarpinu.

361. mál
[14:01]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Innlend dagskrár- og kvikmyndagerð er íslensku samfélagi mjög mikilvæg eins og við þekkjum öll. Íslenskar kvikmyndir hafa borið hróður landsins út fyrir landsteinana og við eigum gríðarlega hæfileikaríkt fólk í þessari atvinnugrein, í atvinnugrein sem mörg hundruð einstaklingar starfa við. Þess vegna beini ég fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra er tengist þessari mikilvægu atvinnugrein um hvort hún hyggist beita sér fyrir því að efla innlenda dagskrár- og kvikmyndagerð hjá Ríkisútvarpinu. Eins og við vitum heyrir Ríkisútvarpið undir hæstv. ráðherra og þjónustusamningur er í gildi á milli ráðuneytisins og þessarar stofnunar og því getur hæstv. ráðherra haft veruleg áhrif á það með hvaða hætti innlend kvikmyndagerð og innlend dagskrárgerð þróast hjá þeirri ágætu stofnun.

Ég vil líka minna á það að í síðustu fjárlögum, þ.e. í fjárlögum ársins í ár, voru framlög til kvikmyndagerðar skorin niður um 24%. Það rímar kannski ekki alveg við þau fyrirheit sem ríkisstjórnin hefur áður boðað, m.a. á blaðamannafundum, um að efla kvikmyndaiðnaðinn í landinu. Þar var í raun og veru farið í þveröfuga átt miðað við það sem boðað var. Það væri þess vegna athyglisvert að heyra frá hæstv. ráðherra hver framtíðarsýn hennar er gagnvart uppbyggingu íslensks kvikmyndaiðnaðar hér á landi vegna þess að menn hafa sýnt fram á það með nokkuð sannfærandi hætti að hver króna sem sett er í íslenska kvikmyndagerð kemur fimmfalt til baka í ríkissjóð. Þetta hefur gríðarleg áhrif á íslenskt hagkerfi og eins og ég sagði hefur það líka mikil áhrif á kynningu landsins. Við þurfum að velta því fyrir okkur á þessum tímum hvar við eigum að draga saman útgjöld en við þurfum líka að velta því fyrir okkur hvar við megum ekki spara.

Ég held því fram að þessi niðurskurður komi niður á menningarlífi landsins, komi niður á þessari atvinnugrein sem er okkur mjög mikilvæg og hefur verið að vaxa stig af stigi á umliðnum árum og tekið stórstígum framförum. Við skulum líka hafa í huga að framlög til íslenskrar kvikmyndagerðar er gjaldeyrisskapandi mál en um helmingur þess fjármagns sem er lagt í íslenska kvikmyndagerð kemur erlendis frá.

Það er því allt sem segir okkur það í því árferði sem hér er að við eigum að styðja og efla íslenska kvikmyndagerð og innlenda dagskrárgerð. Margt hæfileikaríkt fólk vill vinna við þessa atvinnugrein en ég veit um marga einstaklinga í dag í þessum geira sem ekki hafa atvinnu, því miður. Hér þarf að bregðast við (Forseti hringir.) og ég treysti á að hæstv. menntamálaráðherra taki á sig rögg og styðji enn frekar við (Forseti hringir.) bakið á þessari mikilvægu atvinnugrein.