138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

dagskrár- og kvikmyndagerð hjá Ríkisútvarpinu.

361. mál
[14:11]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og ekki síður hæstv. ráðherra fyrir svörin um þau erfiðu verk sem hæstv. ráðherra þarf að axla í þeim mikla niðurskurði sem við höfum verið í og þurfum að vera í eins og kom ágætlega fram hjá hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrr á fundinum. Hæstv. ráðherra er sannarlega í málaflokki þar sem erfitt er að skera niður því að þar eru mörg þörf verkefni sem verið er að sinna og mikilvægar stofnanir í samfélaginu.

Hins vegar er það augljóslega þannig að réttlætingin fyrir starfsemi Ríkisútvarpsins er innlend dagskrárgerð og þess vegna er auðvitað mikilvægt að á hana sé lögð rík áhersla. Og hitt verður að hafa í huga að bæði tilskipanir Evrópusambandsins og íslensk lög kveða á um nauðsynlegt hlutfall í innlenda framleiðslu í rekstri Ríkisútvarpsins og það er mikilvægt að við stöndum vörð um að ákveðin hlutföll eins og þau (Forseti hringir.) séu virt í þeim niðurskurði sem er þannig að stofnanir ríkisins hlífi ekki sjálfum sér á kostnað aðila utan frá.