138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

starfsstöðvar Ríkisútvarpsins.

362. mál
[14:29]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir að hefja máls á þessu þarfa máli. Við stöndum auðvitað frammi fyrir því, eins og fram kom bæði í máli hans og hæstv. ráðherra, að við verðum að spara. Það er engin spurning, það þarf að gera í öllu tilliti. Ég hef mikið velt fyrir mér hversu mikill þessi sparnaður er eða hversu mikið hefur sparast á því að hætta svæðisbundnum útsendingum. Ég spurði sérstaklega um það á aðalfundi RÚV en fékk ekki bein svör við því. Ég held að þetta með starfsstöðvarnar skipti mjög miklu máli því að ég er svo heppin að hafa búið í nágrenni við eina þeirra og þetta er nokkurs konar hjarta samfélagsins. Ég held því að þessar starfsstöðvar skipti mjög miklu máli og velti fyrir mér hvort ekki væri hægt að færa þeim ákveðin verkefni. Þarna er fólk sem þekkir til svæðisins, bæði hvar best er að taka upp í þáttagerð og eins í fréttum.

Einnig langar mig til þess að lýsa yfir ánægju með það sem byrjað er á, þ.e. landsbyggðarfréttatímann, og ég vona að sjónvarpsfréttatíminn komi sem allra fyrst. (Forseti hringir.) Ég hefði þó gjarnan viljað að við mundum ákveða að meta þetta í góðu samráði í haust: Skilar þetta því sem við ætlumst til?