138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

starfsstöðvar Ríkisútvarpsins.

362. mál
[14:33]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég er ekki alveg viss um að ég tali í nákvæmlega sama anda og aðrir þingmenn sem hafa komið hingað upp. Ég tel mjög mikilvægt að fluttar séu fréttir af landsbyggðinni og ekki bara skemmtilegar fréttir heldur alvörufréttir, að það sé umfjöllun um það sem er í gangi úti á landsbyggðinni. Ég er ekkert endilega sannfærð um að það sé eina leiðin að vera með einhvers konar starfsstöð á vegum Ríkisútvarpsins hringinn í kringum landið. Við vorum ekki sátt þegar slík starfsstöð var lögð niður á Suðurlandi en síðan höfum við haft mjög jákvæða reynslu af því að vera með svokallaða vídeófréttamenn, sem eru sjálfstætt starfandi á vegum Ríkisútvarpsins. Þeir fara um með sínar eigin myndavélar og skila inn fréttum. Ég held að við höfum öll orðið vör við hversu kröftugur vídeófréttamaður starfar nú í Vestmannaeyjum, hann Sighvatur Jónsson. Hann hefur líka tekið að sér ýmsa þáttastjórn fyrir RÚV, en býr úti á landi. Þetta er eitthvað sem ég tel að Ríkisútvarpið þurfi að skoða, að tryggja landsbyggðinni aðgang að (Forseti hringir.) útsendingartímum og að fjallað sé um landsbyggðina. Þetta er ekki endilega spurning um að leigja skrifstofu eða aðstöðu beinlínis úti á landi heldur (Forseti hringir.) að fólkið sem flytur fréttirnar sé búsett úti á landi.