138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

kynjaskipting barna í íþróttum.

404. mál
[14:39]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég hef verið að velta því fyrir mér hvort kyn skipti máli í íþróttum og hvort það eigi að skipta máli í íþróttum. Umræða um nákvæmlega þetta var mjög heit fyrir nokkrum mánuðum þegar Caster Semenya vann 800 metrana með tveggja sekúndna forskoti síðasta sumar á heimsmeistaramótinu í Berlín. Ýmsir fóru að velta því fyrir sér hvort Caster væri kona eða karl og hvort hún ætti að keppa sem kona eða karl. Í framhaldi af því fór ég að velta fyrir mér ástæðum þess að kyn virðist skipta svo miklu máli í íþróttum. Hver er ástæða þess að við veitum verðlaun í karlaflokki og kvennaflokki? Hver er ástæða þess að við byrjum að kynskipta ungum íþróttamönnum nánast strax og þeir byrja í íþróttastarfi?

Ég gleymi aldrei bekkjarfélaga mínum sem hafði mikinn áhuga á fótbolta. Hún spilaði með jafnöldrum sínum og var feiknagóður leikmaður. Vandinn gagnvart samfélaginu var hins vegar sá að hún var stelpa og þeir strákar. Leiðin sem flest íþróttafélög virðast hafa farið, eftir að stúlkur fóru í auknum mæli að sækjast eftir þátttöku í íþróttum, er að setja á stofn sérstakar deildir fyrir stúlkur. Við grófa rannsókn á heimasíðum íþróttafélaga, m.a. Vals, ÍBV og KR, virðast yngri flokkar í hópíþróttum nánast alltaf vera skiptir eftir kyni, alveg niður í fimm ára gömul börn. Þetta virðist hins vegar ekki vera jafnalgengt í einstaklingsíþróttum, svo sem borðtennis og sundi. Þetta er svona þrátt fyrir að ítrekað hafi verið bent á að lítill munur er á líkamlegri getu drengja og stúlkna fram að kynþroska. Drengir virðast þó samkvæmt rannsóknum vera virkari, hreyfa sig meira og taka meiri þátt í íþróttum en stúlkur. Samkvæmt yfirborðskenndum rannsóknum mínum á þessu máli liggur það fyrir að það virðist ekki vera geta barna sem stýrir því að kynjum er haldið aðskildum í íþróttastarfi.

Síðan virðist einnig liggja fyrir að jafnvel eftir kynþroska eru karlmenn ekki alltaf betri í öllum íþróttum. Dæmi um þetta er t.d. langhlaup þar sem bilið á milli karla og kvenna fer sífellt minnkandi. Árið 1989 var t.d. Ann Transon fyrsta konan til að vinna bæði karla og konur í 24 tíma hlaupi og hefur almennt staðið sig mjög vel í álagshlaupum gegn bæði konum og körlum. Ég tel að þessar spurningar hljóti að skipta máli nú þegar minni fjármunir eru í samfélaginu til að styðja við íþróttastarf, jafnvel þurfi að skera niður æfingatíma, að velta fyrir sér hvort nauðsynlegt sé að skipta íþróttastarfi eftir kyni nú þegar ríkisstjórnin hefur ítrekað talað fyrir kynjaðri hagstjórn.

Ég vil því spyrja hæstv. mennta og menningarmálaráðherra sem fer einnig með málefni íþrótta og frístunda barna:

1. Er almennt skipt eftir kyni í íþrótta- og frístundastarfi barna hjá íþróttafélögum, bæði á æfingum og á keppnismótum?

2. Ef svo er, liggja fyrir einhverjar rannsóknir um ástæður þess? Er þetta misjafnt eftir íþróttagreinum? Ég nefndi þarna heimasíður þessara þriggja liða.

3. Hvenær má ætla að munur verði á líkamsgetu drengja og stúlkna í íþróttum, miðað við þroska og aldur?

4. Hver er skoðun ráðherra á kynjaskiptingu barna í íþróttum?