138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

kynjaskipting barna í íþróttum.

404. mál
[14:54]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Frú forseti. Ég þakka kærlega fyrir umræðuna og þann áhuga sem hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar sýndu málinu.

Ég held að það sé einmitt mjög mikilvægt að við höldum áfram að tala um þetta, ekki bara innan íþróttafélaganna, heldur líka á opinberum vettvangi, innan Alþingis og utan, því það er nú þannig að frá því börnin okkar fæðast, eða raunar núorðið áður, erum við að stýra þeim í ákveðnar áttir á grundvelli kyns. Við munum nú öll hitann sem varð í umræðunni í samfélaginu þegar einn þingmaður leyfði sér að benda á að það væri kannski ekki sniðugt að vera með bleik og blá teppi á fæðingardeildinni. Það virtist allt ætla að fara á hliðina á tímabili við það að einhverjum dytti í hug að breyta litunum á teppunum.

Ég verð að viðurkenna að ef við ætlum fyrst og fremst að segja það að íþróttafélögin eigi að horfa á hluti sem varða kyn og hvernig t.d. skiptingu fjármuna innan íþróttafélaganna er háttað, þá hef svolitlar efasemdir ef maður horfir á forsöguna hjá íþróttahreyfingunni. Það hafa komið upp dæmi um ákveðin sjónarmið og mismunun á grundvelli kyns. Ég hef sérstaklega miklar áhyggjur af þessu nú þegar dregið hefur mjög mikið úr framlögum frá t.d. einkafyrirtækjum til íþróttahreyfingarinnar og ríkið og sveitarfélög eru líka síður aflögufær, að þetta geti bitnað fyrst á stúlkum sem stunda íþróttir og sérstaklega, eins og ég benti á í upphafsræðu minni, að upp að þeim aldri þegar börnin verða kynþroska er mjög lítill líkamlegur munur á getu þeirra. Þá er einmitt spurning hvort við ættum að horfa til smærri íþróttafélaga í auknum mæli, þá væru kynin að stunda æfingar saman og líka í auknum mæli að keppa saman.