138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

breytingar á fiskveiðistjórnarkerfi samhliða aðildarviðræðum við Evrópusambandið.

240. mál
[15:01]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Mér er nokkur vandi á höndum vegna þess að ég var sammála svo að segja öllu því sem hv. þingmaður hafði um þessa spurningu að segja, ef frá eru taldar ákveðnar upphrópanir undir lok máls hv. þingmanns. Ég er hv. þingmanni algjörlega sammála um að fiskveiðistjórnarkerfið hefur í heildina skapað auð og velsæld fyrir Ísland, það er vel heppnað og grundvöllur þess, þ.e. hin líffræðilega stjórnun, er til fyrirmyndar. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að hvarvetna sem ég kem sem utanríkisráðherra á erlendri grund og ræði t.d. afstöðu milli Íslands og Evrópusambandsins er alltaf talað um þá fyrirmynd sem íslenska kerfið í reynd er og ekki síst hvernig okkur hefur tekist að stýra aflabrögðum þannig að stofnunum er ekki hætta búin.

Hv. þingmaður segir réttilega að það sé arfavitlaust að fara í breytingar sem munu rífa allt í tjá og tundur og slíta sundur. Nú rifja ég það upp fyrir hv. þingmanni að ef hún á hér t.d. við sáttanefndina, samninganefnd um framtíð fiskveiðistjórnarkerfisins sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson situr í, er alveg ljóst að sú nefnd á að reyna að finna samnefnara um breytingar á stjórnkerfi fiskveiða. Það er beinlínis lagt upp í þann leiðangur með það fyrir augum að ná sátt. Ef hv. þingmaður á við fyrningarleiðina, sem Samfylkingunni hefur orðið nokkuð dátt við og sá sem hér stendur hefur haldið nokkrar ræður um hér á Alþingi Íslendinga, er ljóst að sú ábyrgð hvílir á Samfylkingunni innan þeirrar nefndar að sýna fram á að staðhæfingar um að upptaka þeirrar leiðar rústi stoðum eða feyki þeim undan sjávarútvegi á Íslandi séu rangar. Það þarf Samfylkingin að geta sýnt fram á og aðrir sem styðja það kerfi. Ég undirstrika að innan þeirrar nefndar er lagt upp með að ná sátt og engar ákvarðanir hafa verið teknar um annað.

Hv. þingmaður vísaði líka til umræðu síðustu daga og hlýtur þá að eiga við þær hörðu deilur sem hafa staðið um svokallað skötuselsfrumvarp. Muni ég rétt er að finna í því einar sjö, átta breytingar á núverandi stjórnkerfi fiskveiða sem ég held að meira og minna hafi verið sátt um, allar utan eina. Ég skil vel að hv. þingmaður nefni breytinguna í tengslum við aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Hví? Vegna þess að það mál var lagt upp af andstæðingum breytingarinnar með þeim hætti að þar væri verið að bregða út af þeirri hefð og reglu sem hefur skapast að lúta fyrirmælum og ráðleggingum vísindamanna. Þá verð ég að svara því þannig í fyrsta lagi að sú breyting var lítils háttar. Hún varðaði nokkur hundruð tonn af skötusel. Í öðru lagi, ef ég man rétt, felst í breytingunni bráðabirgðaákvæði til tveggja ára. Í þriðja lagi er þetta einungis heimildarákvæði til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og í fjórða lagi lýsti hann því yfir að það yrði farið mjög spart með þá heimild.

Ef ég reyni að svara spurningu hv. þingmanns almennt tel ég ekkert að því að gerðar séu breytingar á stjórnkerfi fiskveiða á meðan á þessu ferli okkar gagnvart Evrópu stendur. Nú undirstrika ég það. Samningaviðræður eru ekki hafnar en ég held að kjarni þeirra breytinga verði að hvíla á því sem við höfum ákveðið að fiskveiðar okkar byggist á, sem eru vísindalegar mælingar á umfangi og stærð stofnanna og vísindaleg ráðgjöf. Því held ég að hafi meira og minna verið fylgt síðustu 15 árin. Ég tel að ef ekki er farið út fyrir þennan breiða ramma sé allt í góðu lagi þótt menn breyti kerfinu eða bæti það. Á meðan á þessu ferli stendur, sem getur verið tvö til fjögur ár, er ljóst að bæði Evrópusambandið og Ísland munu halda áfram að bæta og vonandi endurbæta sín kerfi. Evrópusambandið er að því nú þegar, ég vísa til grænbókarinnar. Hér á Íslandi er engin löggjöf jafn margendurbætt og löggjöfin um stjórnkerfi fiskveiða, ef frá er talin almannatryggingalöggjöfin. Ég sé því ekkert í prinsippinu að því þótt menn haldi áfram að vinda sig áfram (Forseti hringir.) eftir þeirri braut sem leiðir til bóta. (Forseti hringir.)