138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

breytingar á fiskveiðistjórnarkerfi samhliða aðildarviðræðum við Evrópusambandið.

240. mál
[15:08]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Við erum með fiskveiðistjórnarkerfi sem er sannarlega umdeilt en hagkvæmt. Fiskveiðistjórnarkerfi Evrópusambandsins er umdeilt og óhagkvæmt. Það er yfirlýstur tilgangur með þeim breytingum sem gerðar hafa verið og eru í bígerð af hálfu ríkisstjórnarinnar á íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu að draga úr sveigjanleikanum og draga þar með úr hagkvæmni okkar fiskveiðistjórnarkerfis. Þar með er auðvitað verið að leggja drög að því að blúnduleggja leiðina fyrir íslenskan sjávarútveg inn í Evrópusambandið. Með öðrum orðum er verið að reyna að draga úr hagkvæmninni þannig að fiskveiðistjórnarkerfi okkar passi að því leytinu vel inn í fiskveiðistjórnarkerfi Evrópusambandsins. Hæstv. utanríkisráðherra á nefnilega mjög óvæntan bandamann í þessu máli sem er hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra en hann hefur lýst því bókstaflega yfir að það sé markmið hans að draga úr sveigjanleikanum í íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu. Í rauninni er furðulegt að hugsa til þess að með þessu er sennilega, óafvitandi þó, verið að auðvelda að íslenska fiskveiðistjórnarkerfið aðlagist hinu evrópska (Forseti hringir.) og það er hörmulegt til þess að vita að gengið sé fram með þeim hætti.