138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

breytingar á fiskveiðistjórnarkerfi samhliða aðildarviðræðum við Evrópusambandið.

240. mál
[15:10]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Íslenska þjóðin glímir við bráðan vanda sem er afleiðing af hruninu, vanda heimilanna og vanda fyrirtækjanna, og það er númer eitt, tvö og þrjú að skapa atvinnu. Á sama tíma ráðast menn í verk sem mega bíða, eins og t.d. að sækja um aðild að Evrópusambandinu sem krefst gjörbreytingar á landbúnaðarstefnunni, nýrrar stofnunar, nýrrar landbúnaðarstefnu áður en byrjað er að ræða við Evrópusambandið. Auk þess kostar það heilmikið. Síðan ráðast menn í breytingar á sjávarútvegsstefnunni með afskriftakerfinu sem er mjög umdeilt og setur allt í háaloft í þeirri grein. Það hefði líka mátt bíða í tvö, þrjú ár á meðan menn leystu þann vanda sem þeir hefðu átt að vera að leysa en gera ekki. Menn virðast sem sagt vera kerfisbundið að búa til óreiðu, skapa glundroða og búa til pólitískan óstöðugleika. Ég skil þetta ekki og ég skora á hæstv. ríkisstjórn að fara nú að sinna því sem hún á að gera.