138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

lækkun dráttarvaxta og sparnaður heimila og fyrirtækja.

415. mál
[15:23]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Illuga Gunnarssyni að það væri skynsamlegt að fresta dráttarvaxtatöku um einhvern tíma, en ég vil jafnframt koma inn í þessa umræðu og geta þess að uppspretta lánveitinga er jú sparnaður. Sparnaður býr við þau kjör núna að verðbólga er 8,6% en fólk er að fá frá 2% og upp í 4 eða 5% og þegar best lætur 6,5% í bönkunum í vexti óverðtryggt, er sem sagt að tapa og verður að sætta sig við sívaxandi skattlagningu ríkisins á þetta tap sitt eða að reyna að binda fé sitt í lengri tíma á verðtryggðum reikningum sem ekki allir geta.

Ég vil bara benda á að enginn virðist gæta hagsmuna þessarar uppsprettu fjármuna sem er jú ætlað að standa undir öllum þessum lánum. Við fáum ekki lán erlendis heldur. Ég held að menn þurfi að fara að skoða hagsmuni þeirra sem neita sér um neyslu og leggja fyrir.