138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

lækkun dráttarvaxta og sparnaður heimila og fyrirtækja.

415. mál
[15:27]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Þetta hefur verið ágæt umræða og ber að þakka það. Við munum að sjálfsögðu fá tækifæri til þess í þinginu að ræða þessi mál síðar þegar það frumvarp sem hv. þm. Illugi Gunnarsson og fleiri hafa lagt fram um dráttarvexti kemur til umfjöllunar. Ekki gefst tími til að ræða það hér í þaula en ég vil þó segja þetta: Ég er í grundvallaratriðum sammála þeirri hugsun sem þar er sett fram um að við fortakslausar aðstæður eins og við búum nú við sé óeðlilegt að í dráttarvöxtum felist einhvers konar refsiþáttur sem kemur illa við fólk sem lendir ekki í vanskilum vegna þess að það vill ekki greiða heldur vegna þess að það getur ekki greitt. Ég er alveg hjartanlega sammála þessari hugsun, en ég hef ákveðnar efasemdir um þá útfærslu sem lögð er til í frumvarpinu og það er alveg sjálfsagt að fara yfir hana þegar málið kemur til afgreiðslu í þinginu. Ég óttast að sú útfærsla sem lögð er til í þessu tiltekna frumvarpi gæti beinlínis búið til hvata til þess að neita að greiða ákveðna reikninga og fá þess í stað mjög lága vexti á þær skuldir og nota það fé sam þannig sparast til að greiða niður skuldir sem eru á hærri vöxtum, t.d. yfirdrátt í bönkum. Ég held að það geti ekki verið eðlilegt fyrirkomulag. Það verður að vera eitthvert samhengi á milli þeirra vaxta sem eru á lánum í vanskilum og þeirra vaxta sem mönnum bjóðast á öðrum útlánum, t.d. yfirdrætti í bönkum. En yfir allt þetta munum við væntanlega fara þegar títtnefnt frumvarp kemur til umræðu í þinginu.