138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

brunavarnir á flugvöllum landsins.

434. mál
[15:34]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir að koma í þingið til að svara þessari fyrirspurn því að fyrirspurnin var á dagskrá eftir klukkan sex í dag, það er mikið álag í þinginu en hann kom hér stökkvandi og það er gott og þakka ég honum fyrir það.

Fyrirspurnin varðar fyrirkomulag brunavarna á flugvöllum landsins. Nú er verið að gera breytingar á brunavörnum á flugvöllum, verið er að færa ákveðna þjónustu til sveitarfélaga án greiðslna í mörgum tilvikum og lagaleg óvissa ríkir um málið. Í minnisblaði um slökkvistarf á flugvöllum frá 12. janúar 2010 segir að afstaða Brunamálastofnunar og umhverfisráðuneytis sé sú að frumábyrgð á öryggismálum á flugvöllum skuli vera á hendi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og Flugmálastjórnar Íslands og þeir skuli setja saman rekstraraðilum flugvallar reglur um hvernig staðið skuli að málum.

Í niðurlagi þessa minnisblaðs kemur fram að lagt er til að umhverfisráðuneyti og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti taki málið upp og skeri úr um hvort og að hvaða leyti lög um brunavarnir skuli gilda um slökkviþjónustu á flugvöllum. Er svo talað um reglugerðir og hvort þær gildi.

Mig langar í framhaldi af þessu að spyrja hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra eftirfarandi spurninga:

1. Telur samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að fyrirkomulag brunavarna á flugvöllum landsins sé með þeim hætti að fullt öryggi sé tryggt miðað við það sem að framan hefur verið sagt?

2. Telur samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að menntun, þjálfun og búnaður þeirra sem sinna eiga brunavörnum á flugvöllum landsins sé eins og best verður á kosið?

3. Er samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra þeirrar skoðunar að lög um brunavarnir gildi ekki um flugvallarslökkvilið á Íslandi?

4. Hefur ráðherra í hyggju að hefja endurskoðun reglugerðar um flugvelli með vísan í lög um brunavarnir þannig að gildissvið laganna sé ótvírætt?

5. Telur ráðherra forsvaranlegt að ætla slökkviliðum sveitarfélaga að sinna brunavörnum á flugvöllum þótt engir tekjustofnar vegna þessa hlutverks séu tryggðir, enda ber flug ekki brunamálagjald eins og fasteignir?

Fyrirspurnin er í fimm liðum og óska ég eftir því að hæstv. ráðherra svari þessu eins og best verður á kosið.