138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

brunavarnir á flugvöllum landsins.

434. mál
[15:43]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svör hans. Þarna er á ferðinni ákveðin skekkja og ráðuneytin skarast þarna að vissu leyti vegna þess að slökkvilið hvers svæðis hefur ákveðna lögbundna þjónustu á meðan t.d. eins og á Reykjanesi þar sem mannvirkin á Miðnesheiði og þar með talið olíubirgðastöðvarnar eru á ábyrgð sveitarfélaganna. Mér var sagt fyrir stuttu að frá og með 1. apríl eigi þetta að fara frá ríkinu og yfir á sveitarfélagið án þess að nokkrar tekjur fylgi með. Mig langar því að koma með áframhald á þessari spurningu, hvort það sé rétt? Ef svo er, hvers vegna fara tekjustofnar með þessari þjónustu þarna ekki yfir?

Varðandi það sem kom fram í fyrri spurningum mínum, þ.e. um starfsmannaskortinn, þá hefur Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna ályktað um þessi mál á Keflavíkurflugvelli. Þeir segja í ályktun sem þeir sendu frá sér þann 4. mars að þeir séu hræddir um að öryggi slökkviliðsmanna og flugfarþega og annarra sem um Reykjavíkurflugvöll fara sé stefnt í hættu vegna skerðingar á viðbúnaðarþjónustu. Ég er einnig með bréf frá 15. febrúar þar sem ráðherra sendir Flugmálastjórn einmitt þetta sem hann var að fara yfir varðandi Chicago-samninginn.

Ég læt þessu lokið núna og bið ráðherra um að svara spurningunni um yfirfærsluna án fjármagns.