138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

rafræn sjúkraskrá.

231. mál
[18:18]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Róbert Marshall) (Sf):

Virðulegur forseti. Á meðal okkar er fólk sem daglega stígur í þögn sín glímuspor við banvæna sjúkdóma. Heilu fjölskyldurnar og vinnuhóparnir fylgjast með þeirri baráttu og geta lítið annað boðið en andlegan stuðning, hvatningarorð og hljóðar bænir. Íslenska heilbrigðiskerfið jafnast á við það sem best er gert í heiminum öllum en má sín oft lítils gegn ofurefli illvígra meina sem enginn þekkir lækningu við. Það er vegna einnar slíkrar sögu sem hér eru bornar upp tvær fyrirspurnir í röð til heilbrigðisráðherra.

Í júlí á síðasta ári lést flugstjórinn Atli Thoroddsen eftir þriggja ára baráttu við beinkrabbamein og í bók hans, Dagbók rokkstjörnu, sem kom út í nóvember lýsir hann baráttu sinni í þrjú ár við sjúkdóminn sem síðan varð að baráttu fyrir breyttum vinnubrögðum heilbrigðiskerfisins. Hans reynsla sýndi að sambandsleysi milli sérfræðinga olli mikilli seinkun á greiningu sem skiptir oft sköpum í baráttunni við krabbamein og eins olli sambandsleysið óþægindum þar sem í sífellu þurfti að endurtaka sömu upplýsingarnar. Fyrir rétt rúmu ári sat Atli heitinn fund með stjórnendum Landspítalans um úrbætur í þessum efnum. Hér eru því tvær fyrirspurnir sem ég ber upp í röð varðandi það hvað hafi orðið af þeirri vinnu. Ég spyr:

Hvernig gengur undirbúningur rafrænnar sjúkraskrár fyrir allt landið og hvenær má búast við að hún verði komin í notkun?

Ég held að allir séu sammála um að með henni fengju sjúklingar betri þjónustu og læknar hefðu aðgang að betri upplýsingum á einum stað. Þess vegna er þetta mikilvægt öryggisatriði ásamt því að þetta auðveldar alla vinnslu og varðveislu upplýsinga.