138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

rafræn sjúkraskrá.

231. mál
[18:21]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Róberti Marshall fyrir þessa spurningu. Ég tek undir það með honum að sambandsleysi milli meðferðaraðila, milli sjúkrahúsa, milli sérfræðinga, milli heilsugæslu og annarra sem sinna sjúklingum getur bæði valdið tvíverknaði og töf, skapað öryggisleysi og jafnvel ógnað öryggi einstaklinga.

Frú forseti. Það eru nokkur ár síðan rafræn sjúkraskrá var innleidd á allar heilsugæslustöðvar og heilbrigðisstofnanir landsins. Upplýsingar sem skráðar eru í sjúklingaskrá eru því miður enn að miklu leyti bundnar við þann stað þar sem heilbrigðisþjónustan er veitt. Það eru þó á þessu undantekningar. Sjúkraskrár Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins voru sameinaðar árið 2009 og um síðustu áramót voru sameinaðar sjúkraskrár 8 stofnana á Vesturlandi í einn gagnagrunn Heilbrigðisstofnunar Vesturlands og reyndar á það sama við um Austurland þar sem fyrsta sameinaða sjúkraskráin varð til. Nú þegar er hafinn undirbúningur að samtengingu sjúkraskráa heilbrigðisstofnana á Norðurlandi.

Lögin um sjúkraskrár, sem tóku gildi 1. maí 2009, marka tímamót að því leyti að þau heimila samtengingar rafrænna sjúkraskráa meðal mismunandi þjónustuaðila og heilbrigðisstofnana. Þar með er lagður grunnur að uppbyggingu heildrænnar sjúkraskrár einstaklings ævilangt, óháð því hvar upplýsingarnar eru skráðar. Það hefur að sjálfsögðu þá kosti í för með sér að greiður aðgangur er fyrir alla meðferðaraðila að mikilvægum upplýsingum hvar og hvenær sem þeirra er þörf. Þetta veitir aukna yfirsýn og tryggir samfellu þjónustunnar eins og unnt er þannig að hægt er að veita eins örugga heilbrigðisþjónustu og kostur er á hverjum tíma, með sem minnstum tilkostnaði og án tvíverknaðar. Það er fleira en rafræn sjúkraskrá sem kemur til álita.

Frá árinu 2009 hafa allar heilsugæslustöðvar, heilbrigðisstofnanir og sjúkrahús landsins möguleika á að senda lyfseðla rafrænt til allflestra lyfjabúða landsins. Þetta á reyndar líka við um margar starfsstöðvar sjálfstætt starfandi lækna. Innleiðing stendur yfir á rafrænum umsóknum um lyfjaskírteini til Sjúkratrygginga Íslands. Sameiginlegu aðgengi rannsóknasvara hefur verið komið á á milli Landspítala og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Heilbrigðisstofnana Vesturlands, Suðurlands og á Suðurnesjum og fljótlega mun Norðurlandið bætast í hópinn. Þá skrá hjúkrunarfræðingar á legudeildum upplýsingar á nokkrum sjúkrahúsum, hjúkrunarupplýsingar, rafrænt, þ.e. Heilbrigðisstofnunin á Suðurnesjum, á Suðurlandi og í Vestmannaeyjum, og mun sú innleiðing ná til allra sjúkrahúsa á árinu 2010.

Hv. þingmaður spyr hvernig gangi að koma á rafrænni sjúkraskrá fyrir allt landið og hvenær búast megi við að hún verði komin í notkun. Það er auðvitað háð því, frú forseti, hvernig fjárveitingar til verkefnisins eru. Á þessu ári, árinu 2010, er í heildina gert ráð fyrir 93 millj. kr. í upplýsingatæknimál á fjárlagaliðum ráðuneytisins til þessa verkefnis.

Verkefnin fram undan felast m.a. í að koma á rafrænum sendingum lækna- og hjúkrunarbréfa, vottorða, innleiðingu á legudagakerfi fyrir sjúkrahús, eins og ég nefndi, og þróun á atvikaskráningu í sjúkraskrá. Haldið verður áfram með verkefnið um landsaðgang að rannsóknasvörum. Þá vil ég nefna að það er mikilvægt öryggismál sjúklinga að koma á samtengdum lyfja- og ofnæmisupplýsingum og landsaðgangi að myndgreiningum.

Ég mun beita mér fyrir því að frekari samtenging sjúkraskráa, jafnt innan heilbrigðisumdæma sem á milli þeirra, verði að veruleika eins fljótt og auðið er, enda er það trúa mín að með markvissri uppbyggingu og þróun á rafrænni sjúkraskrá og samræmdri notkun megi bæta þjónustu, öryggi og gæði sem og að hagræða í heilbrigðisþjónustu á landinu