138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

rafræn sjúkraskrá.

231. mál
[18:28]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þessar ábendingar og athugasemdir. Ég tek undir það með hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni að mikilvægt er að hraða innleiðingu rafrænna samskipta í heilbrigðiskerfinu öllu vegna þess að það tryggir öryggi. En í því er líka fólgin fjárhagsleg hagræðing sem við þurfum svo sannarlega á að halda í dag.

Nefnd sú sem hv. þingmaður gat um, og er undir formennsku Þorvaldar Ingvarssonar, er enn að störfum og var reyndar að funda í ráðuneytinu í morgun. Það er búið að ganga þar frá kröfulýsingu við innleiðingu flestra þeirra þátta sem hér hafa verið nefndir. Ég ætla sannarlega að vona að það sé ekki rétt, sem hv. þingmaður sagði, að fjármunir sem veittir eru í þessu skyni nýtist ekki sem skyldi. Það veitir svo sannarlega ekki af því að fjármunir nýtist mjög vel alltaf og alls staðar nú um stundir.

Hvað varðar athugasemdir hv. þm. Péturs H. Blöndals vil ég ítreka það að lögin um rafrænar sjúkraskrár, sem tóku gildi 1. maí sl., kveða mjög skýrt og afdráttarlaust á um vernd persónuupplýsinga í sjúkraskránum. Það er mikilvægt að tryggja öryggi sjúkraskrárupplýsinga í rafrænum sjúkraskrárkerfum, með aðgangsstýringum, rekjanleika og skilvirku eftirliti, og menn vita að þeir skilja eftir fótspor í sjúkraskránum í hvert skipti sem þeir fara þar inn. Ég tel því að ekki sé mikil ástæða til að hafa áhyggjur af öryggi þeirra upplýsinga sem þarna eru skráðar. Ég tel reyndar að þær séu svo mikilvægar að hraða verði innleiðingunni eins og kostur er.