138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

markaðsleyfi fyrir lyf.

421. mál
[18:46]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra svörin. Það er ánægjulegt að fjöldi lyfja sem bíða markaðsleyfis sé ekki meira en 10% af því sem fyrir liggur. Ég þyrfti kannski að spyrja nánar út í hvort það sé alveg ljóst að þessi leyfi, sem eru 131 talsins, séu ekki af þessum nýju lyfjum sem eru í vinnslu, vegna þess að ef svo er gefur þetta náttúrlega ekki rétta mynd. Ég ætla þó ekki að dæma um það hér.

Ég þekki hins vegar úr störfum mínum áður en ég kom á Alþingi að það hefur valdið vandræðum t.d. í útboðum fyrir lyf á Landspítala að markaðsleyfi hafa ekki verið afgreidd innan tilsetts tímafrests. Það hefur orðið til þess að Landspítalinn hefur ekki getað keypt þau lyf á því verði sem best voru boðin. Á þeim tíma þegar ég vann við þetta sjálf gátu þetta verið umtalsverðar upphæðir. Ég held að það séu reiknaðar út og gerðar áætlanir um flóknari hluti en að áætla í grófum dráttum hvað það gæti sparað ríkinu ef markaðsleyfi væru afgreidd á réttum tíma. Ég þori næstum að fullyrða að það hlaupi á hundruðum milljóna á ári.