138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

bólusetningar og skimanir.

419. mál
[19:00]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram. Tveir fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherrar hafa blandað sér í umræðuna auk núverandi hæstv. ráðherra og þeirrar sem hér stendur. Ég held að það sýni að þeir sem hafa kynnt sér þessi mál sjá hversu gríðarlega mikilvægt er að grípa til einhverra ráða og hversu þjóðhagslega hagkvæmt er að hefja þessar bólusetningar.

Ég tek undir það sem hæstv. ráðherra sagði að það er tímabært að við gerum allt sem við getum til þess að hefja þessar bólusetningar með einhverjum hætti. Hæstv. ráðherra nefnir kostnaðinn 125–140 milljónir. Það er erfitt við þessar aðstæður að sjá hvar á að finna þær milljónir en ég vil samt sem áður brýna hæstv. ráðherra til að reyna allt sem í hennar valdi stendur til að þessar bólusetningar geti hafist. Þær eru ákaflega mikilvægar. Sýkingar í eyrum ungbarna eru t.d. mjög kostnaðarsamar fyrir hið opinbera, eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir kom inn á, þetta er gríðarlega kostnaðarsamt fyrir samfélagið, ég tala nú ekki um fjölskyldurnar.

Ég tel ákaflega mikilvægt — og ég vona að það hafi ekki misskilist hér í fyrri ræðu minni — að ekki verði dregið úr skimunum á vegum Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins fyrir leghálskrabbameini. Þetta tvennt getur stutt hvort annað og á að styðja hvort annað. Leitarstöð Krabbameinsfélagsins hefur staðið sig gríðarlega vel og mjög hefur dregið úr dauðsföllum, af völdum leghálskrabbameins sem og af völdum brjóstakrabbameins. Þó að hér verði hafnar bólusetningar allra tólf ára stúlkna á landinu gegn þeirri veiru sem veldur m.a. leghálskrabbameini tel ég að leitarstarf Krabbameinsfélagsins, Leitarstöðvarinnar þar, verði ekki síður (Forseti hringir.) mikilvægt eftir það en verið hefur hingað til.