138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

bólusetningar og skimanir.

419. mál
[19:02]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka kærlega fyrir þá umræðu sem hér hefur orðið og fagna hinni þverpólitísku samstöðu sem birtist í umræðunni og í þingsályktunartillögu sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir er 1. flm. að og hér hefur borið á góma. Það er rétt að það er mikilvægt á tímum niðurskurðar að við getum horft til framtíðar. Það er alveg áreiðanlegt, og það þarf ekki marga sérfræðinga til þess að sjá það, að þetta er þjóðhagslega hagkvæm aðgerð.

Hér hefur verið bent á þær þjáningar sem börn verða fyrir af völdum eyrnabólgu — sú mikla lyfjanotkun og þau áhrif sem sú mikla lyfjanotkun hefur aftur á ónæmi sýklanna og hversu miklum kostnaði það veldur. Eitt er hér ónefnt og það er kostnaður foreldra sem sí og æ þurfa að vera frá vinnu vegna þessara sjúkdóma sem herja á 95% af börnunum okkar.

Norðurlöndin öll hafa þegar tekið upp bólusetningar gegn lungnabólgubakteríum. Það er algild bólusetning nema í Finnlandi þar sem tekið er á sérstökum áhættuhópum. Ég vil líka nefna hjarðáhrif sem af þessu hafa orðið, það er mælanlegt í Bandaríkjunum, sem tóku þetta fyrst upp á árinu 2000, að bólusetningar ungra barna, innan við ársgamalla, hafa þau áhrif að lungnabólgubakteríur verða síður í umhverfinu og þær smita síður afa og ömmu og valda þess vegna færri dauðsföllum hjá eldra fólki og minni sjúkdómum en áður var.

Ég vil taka undir það sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sagði hér áðan að skýrslan, sem er grundvöllur þessarar umræðu, er grundvallargagn og mun nýtast okkur til frambúðar við skipulagningu á betri heilbrigðisþjónustu á landinu.