138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

sjálfvirk afsláttarkort.

444. mál
[19:07]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni kærlega fyrir fyrirspurnirnar. Hann spyr í fyrsta lagi hvað líði innleiðingu sjálfvirks afsláttarkorts Sjúkratryggingastofnunar. Því er til að svara að heilbrigðisráðuneytið hefur, eins og hv. þingmaður nefndi, í samvinnu við Sjúkratryggingar Íslands, unnið að aukinni uppbyggingu rafrænna samskipta á milli heilbrigðisstofnana í því skyni að auka öryggi og bæta þjónustu við sjúklinga. Frá og með 11. mars sl. — það er hálfur mánuður, frú forseti — eru umsóknir um lyfjaskírteini rafrænar frá lækni til Sjúkratrygginga Íslands. Fyrsta umsóknin var einmitt send frá heilsugæslunni í Efra-Breiðholti. Frá Sjúkratryggingum Íslands er upplýsingunum síðan miðlað rafrænt til lyfjaverslana landsins þannig að afsláttur sjúklings varðandi lyfjakaup liggur fyrir þegar lyfin eru sótt, eða á að liggja fyrir þegar lyfin eru sótt. Gert er ráð fyrir að innleiðingin muni ná til alls landsins á næstu vikum. En það verður að segjast eins og er að þessa dagana eru enn þá nokkrir hnökrar á þessu kerfi, sem eðlilegt er þegar verið er að ræsa það af stað.

Í öðru lagi spyr hv. þingmaður: „Hvers vegna þarf enn að leggja fram greiðslukvittanir fyrir þjónustu sem sinnt er á heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum öðrum en Landspítala?“ Því er til að svara að á árinu 2007 var farið af stað með tilraunaverkefni á milli Landspítala og Tryggingastofnunar ríkisins um rafræna miðlun um tryggingarlega stöðu sjúklinga og rétt þeirra til afsláttar af heilbrigðisþjónustu. Þetta verkefni gaf góða raun og í framhaldi af því hafa heilbrigðisráðuneytið og Sjúkratryggingar verið í samvinnu um næstu skref sem lúta að innleiðingu þessa verkefnis á landsvísu. Það er einnig gert ráð fyrir því að þessari innleiðingu verði lokið fyrir allt landið fyrir næstu áramót, fyrir 1. janúar nk.

Í þriðja lagi, frú forseti, er spurt hvenær gert sé ráð fyrir að afsláttarkortskerfið taki gildi. Það er, eins og ég hef sagt: Í framhaldi af þessu sameiginlega verkefni Sjúkratrygginga Íslands og ráðuneytisins, um rafrænar umsóknir um lyfjaskírteini, er þegar hafinn undirbúningur að innleiðingu, bæði á upplýsingum um tryggingarlega stöðu einstaklings sem og rétt hans til afsláttar af heilbrigðisþjónustu. Þá munu upplýsingar um þessa tryggingarlegu stöðu og greiðsluþátttöku liggja fyrir í hvert sinn sem einstaklingur þarf að leita eftir þjónustu innan heilbrigðiskerfisins, þ.e. hvort hann er kominn með fullan afslátt eður ei. Enn fremur er gert ráð fyrir því að þessari innleiðingu verði lokið á landsvísu fyrir næstu áramót.

Með innleiðingu rafræns afsláttarkerfis í heilbrigðisþjónustu er stigið verulega stórt skref í að auka rafræna stjórnsýslu. Þetta mun örugglega bæta þjónustuna og gæði hennar gagnvart notendum, auk þess sem þetta mun án efa skila töluverðum sparnaði. Ég mun áfram leggja áherslu á að hagnýta upplýsingatækni eins og kostur er til þess að auka öryggi, gæði og hagræðingu innan heilbrigðisþjónustunnar.

Mig langar til að geta þess hér, frú forseti, að ég átti þess kost fyrir skömmu að fá upplýsingar um innleiðingu rafrænna samskipta í heilbrigðisþjónustu, m.a. á Spáni. Þar kemur fram að í einu af sjálfsstjórnarhéruðum Spánar, Andalúsíu, hafi innleiðing rafrænna lyfseðla ein og sér sparað um 25% af vinnu lækna. Þetta er gríðarlega stór og mikill áfangi. Þetta er eitt af því sem verið er að innleiða núna. Það er kominn aðgangur að rafrænum lyfseðlum fyrir allflesta lækna sem vilja tengja sig við það í gegnum sögukerfið beint inn í lyfjaverslanir á landinu. Með samtengingu er síðan hægt að ná umtalsverðum vinnusparnaði auk þess sem öryggi verður meira og eftirlit auðveldara.