138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

sjálfvirk afsláttarkort.

444. mál
[19:12]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég skil það sem svo að um næstu áramót séum við að sjá niðurstöðu í þessu máli. Hæstv. ráðherra fór ágætlega yfir kosti þess að nýta rafræn samskipti því að þetta er hvort tveggja í senn aukið öryggi og einnig er hagræði að þessu. Þess vegna lagði ég jafnmikla áherslu á þetta mál og raun ber vitni í minni tíð sem ráðherra og þetta snýr líka að þjónustu við sjúklinga.

Þó að það snúist ekki um fyrirspurn hér hlýt ég samt sem áður að hvetja hæstv. ráðherra til dáða í því að taka greiðsluþátttökukerfið og koma með útfærðar tillögur að gera það sambærilegt við það gerist á Norðurlöndunum. Því miður stöðvaði fyrirrennari hennar í embætti þá vinnu sem var komin ansi langt. En hæstv. ráðherra hefur nú lýst því yfir hér í þinginu að hún muni vinna í þeim málum og treysti ég því og hvet hæstv. ráðherra til dáða í þeim efnum.

Það kom líka fram að Sjúkratryggingastofnun vinnur mikið með heilbrigðisráðuneytinu hvað þetta varðar og það er gott að hafa slíkt tæki sem Sjúkratryggingastofnun er, sem hefur, og mun væntanlega hafa í auknum mæli í framtíðinni, yfirsýn yfir þennan praktíska þátt heilbrigðisþjónustunnar. Það er mikil bót frá því þegar hún var ekki til staðar vegna þess að Sjúkratryggingastofnun, eins og við þekkjum hana í dag, var faktískt í þrem stofnunum fyrir mjög skömmu, ég held að það séu bara eitt eða tvö ár síðan.

Hér erum við því að tala um mál sem við erum sammála um. Ég er ánægður með svör hæstv. ráðherra. Ég hvet hæstv. ráðherra til dáða í þessum efnum og heiti henni öllum mínum stuðningi við það að koma þessu í framkvæmd.