138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

starfsemi ECA.

[10:34]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni að fyrirtækið ECA Program Ltd., sem er skráð í Lúxemborg og stofnað var 2007, átti fund þar sem voru m.a. tveir fulltrúar Varnarmálastofnunar með Flugmálastjórn Íslands 19. mars í fyrra til að kanna mögulegt eftirlit Flugmálastjórnar með hugsanlegri flugstarfsemi fyrirtækis hér á landi. Það er nú upphafið að þessu. Eins og allir vita er það hlutverk Flugmálastjórnar Íslands að annast skráningu, heimildarveitingu og eftirlit með starfrækslu loftfara á Íslandi. Það sem þar kom fram var að hluti af áætlun ECA var að kaupa og leigja rússneskar Sukhoi SU-30 þotur. Þær þotur eru mjög flóknar með óvenjulega flugeiginleika. Þær eru framleiddar sem hljóðfráar herþotur en í þeim verður enginn vopnabúnaður hins vegar. Það kom fram þar. Það kom líka fram að þær eru búnar vestrænum flugleiðsöguútbúnaði. (Gripið fram í: Nú?) Félagið var sem sagt að leita sér að heimahöfn og horfði hingað til Íslands hvað þar varðar, þar á meðal til Keflavíkurflugvallar.

Þar sem þetta heyrir undir stofnanir samgönguráðuneytisins, annars vegar Flugmálastjórn og hins vegar Keflavíkurflugvöll, fór ráðuneytið yfir það og taldi að Flugmálastjórn yrði að fara yfir þau mál sem þarna væri spurt um og þau skoðuð. Það hefur verið gert með vitneskju og samþykki ráðuneytisins enda teljum við ekki annað hægt, þetta er fyrirtæki sem er á hinu Evrópska efnahagssvæði. Þess vegna hefur Flugmálastjórn farið yfir það. Ég setti það sem kröfu að greitt yrði fyrir þá vinnu fyrir fram ef ekkert yrði af starfseminni þannig að við værum ekki að leggja út þann kostnað. Eftir því sem ég best veit er Flugmálastjórn enn þá að kanna þessa þætti og ég hef ekki fengið inn á mitt borð neinar tillögur eða annað slíkt frá Flugmálastjórn hvað þetta varðar. Því einu er hægt að svara (Forseti hringir.) hv. þingmanni að þetta mál hefur verið tekið þessum tökum og hefur verið unnið eftir því sem hér hefur verið sagt. Ég get kannski aðeins í seinna svari mínu getið um aðkomu Keflavíkurflugvallar ohf.