138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

starfsemi ECA.

[10:37]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hér staðfestir hæstv. ráðherra að það er búin að vera vinna á vegum Flugmálastjórnar í marga mánuði að undirbúningi þessa máls á vegum ráðuneytisins. Fyrir það hefur verið greitt af þessu fyrirtæki. Þetta hefur verið unnið með vitund og vilja þessarar ríkisstjórnar og m.a. tjáði hæstv. fjármálaráðherra sig um þetta í útvarpsviðtali á síðasta ári þar sem hann gerði ekki athugasemdir við málið. Þetta er því alveg furðuleg uppákoma, sérstaklega af hálfu þingmanna Vinstri grænna, hvernig þeir bregðast við þegar þetta mál kemur hingað inn, alveg stórfurðulegt. Ég veit ekki hvað hefur gerst í þeirra herbúðum í þessu máli en ég held að þeir þurfi að fara til heimahafnar sinnar og taka þetta mál til ærlegrar endurskoðunar þar.

Atvinnuuppbygging stoppar ítrekað á borði ríkisstjórnarinnar. Það er ekki hægt að koma neinum málum þar áfram vegna stefnu Vinstri grænna, það er alveg sama hvaða nafni það nefnist.

Að lokum vil ég gera athugasemd við að hæstv. samgönguráðherra hafi ekki orðið við beiðni minni í þessari viku um að taka þetta mál (Forseti hringir.) til umræðu utan dagskrár. Hann er búinn að hafa tíma síðan á mánudag til að verða við þeirri beiðni okkar sem ítrekað hefur verið lögð fram.