138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

starfsemi ECA.

[10:38]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er rétt að hv. þingmaður bar það upp við mig í þessari viku hvort ég geti tekið við hann utandagskrárumræðu um þetta mál í þessari viku. Ég svaraði honum því að það væri ekki hægt, m.a. vegna þess sem ég sagði áðan, að mig skortir frekari gögn og frekari upplýsingar um þá skoðun sem gerð hefur verið hjá Flugmálastjórn. Á þessum stutta tíma held ég að við ættum frekar að snúa okkur að málinu en einhverju skítkasti frá hv. þingmanni um hvort ég hefði getað svarað honum í þessari viku eða ekki. Ég er tilbúinn til þeirrar viðræðu um leið og ég hef fengið öll gögn til að fara yfir málið.

Virðulegi forseti. Það sem ég ætlaði að segja áðan var spurning sem frá þessu fyrirtæki hefur komið til Keflavíkurflugvallar ohf. Þeir hafa verið að skoða þá aðstöðu sem þar er og mér skilst að þeir hafi verið orðnir frekar fráhverfir þeim byggingum sem þar eru vegna mikils viðhaldskostnaðar og uppbyggingar og hafa frekar verið að hugleiða að sækja um lóð. Ég veit ekki hvað það er komið langt en ég veit til þess, virðulegi forseti, að það kom einu sinni spurning til þeirrar stjórnar um leigu, (Forseti hringir.) þá var talað um leiguverð. En það sem viðkomandi fyrirtæki vildi borga var alveg út í hróa hött, ef svo má að orði komast. Þetta verður ekki niðurgreidd starfsemi, virðulegi forseti, af almennum flugfarþegum á Keflavíkurflugvelli. (Forseti hringir.) Þetta verður að vera á viðskiptalegum forsendum ef af verður. Þær tölur sem þarna voru settar fram bentu til þess að leigan ætti að vera niðurgreidd af flugfarþegum (Forseti hringir.) og það er ekki á dagskrá.