138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

hjúkrunarrými á Ísafirði.

[10:40]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra varðandi hjúkrunarrrými. Um leið og ég fagna því að það stendur til að byggja nokkuð mörg slík á næstu tveimur árum samkvæmt áætlun félagsmálaráðuneytisins og fagna ég því að lögum um Íbúðalánasjóð var breytt þannig að Íbúðalánasjóður getur fjármagnað slíkar byggingar. En ég vil sérstaklega spyrja út í eitt bæjarfélag sem ekki er inni í áætlunum hæstv. ráðherra en hefur þó verið inni í áætlunum hingað til og það er Ísafjörður.

Í nóvember 2006 var gerð áætlun á vegum þáverandi hæstv. heilbrigðisráðherra Sivjar Friðleifsdóttur um að byggja þar tíu hjúkrunarrými. Svo bætti þáverandi hæstv. félagsmálaráðherra Jóhanna Sigurðardóttir um betur og gerði áætlun um að byggja þar 30 hjúkrunarrými en núna er Ísafjörður dottinn út í áætlunum núverandi hæstv. félagsmálaráðherra einhverra hluta vegna. Ísafjörður hefur þá sérstöðu sem stórt bæjarfélag að hafa ekki hjúkrunarrými, þar er ekkert hjúkrunarrými af neinu tagi þannig að vandi þeirra öldruðu sem þurfa hjúkrunarrými er leystur öðruvísi og með verri úrlausnum. Ég beini því þessari spurningu til hæstv. ráðherra: Hvenær stendur til að ráðast í áætlanirnar um byggingu hjúkrunarrýmis á Ísafirði? Ég sá í Staksteinum Morgunblaðsins í dag að staksteinahöfundur hefur ansi mikla trú á hæstv. ráðherra. Ég deili þeirri trú og vonast þess vegna til að hæstv. ráðherra geti gefið afdráttarlaus svör um það hvenær ráðist verður í byggingu hjúkrunarrýma á Ísafirði. Það er vonandi á allra næstu árum í samræmi við áætlanir sem gerðar voru.