138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

skuldavandi heimilanna.

[10:52]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Undarlegar spurningar verðskulda undarleg svör. Ekki var nú skýrara ljósið í seinni uppákomu hv. þingmanns hér.

Ég sagði aldrei að þetta væri bönkunum að kenna, ég sagði að það væri mikilvægt að takast á við málin. Ég lagðist aldrei gegn því að efnahags- og skattanefnd kannaði þetta mál, þvert á móti sagði ég að það væri gott. Hv. þingmaður verður líka að hlusta á þau svör sem fram eru borin úr ræðustól.

Það er mikilvægt, eins og ég sagði áðan og ítreka hér, að bankarnir nýti allt það svigrúm sem þeir hafa, en það er líka mikilvægt að öll önnur fyrirtæki geri það. Eignarleigufyrirtæki, sem ég nefndi sérstaklega, hafa ekki gert það með sama hætti, þau hafa ekki horfst í augu við raunverulega endurheimtumöguleika sinna lána með sama hætti og bankarnir hafa þó verið að gera. Það er brýnt verkefni að kalla eftir samfélagslegri ábyrgð að þessu leyti. Stærsta verkefnið sem við stöndum frammi fyrir er að þeir sem eiga kröfur á hendur einstaklingum og fyrirtækjum horfist í augu við hvað er raunsætt að innheimta (Forseti hringir.) og lágmarki með því tjón samfélagsins af því eignahruni og hækkun skuldsetningar sem orðið hefur.