138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

skattgreiðslur af skuldaniðurfellingu.

[10:53]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Mig langar að spyrja hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra Árna Pál Árnason út í skatta af leiðréttingu lána. Í þessari viku erum við flest að ganga frá skattskýrslunni og því er mikilvægt að hafa þessa hluti á hreinu. Ég tók eftir því á blaðamannafundi í síðustu viku að þeir ráðherrar sem þar sátu höfðu töluvert aðrar hugmyndir um af hverju við eigum að borga skatt og af hverju ekki. Ætla ég því að biðja hæstv. ráðherra að aðstoða mig við framtalsgerðina þetta árið.

Þannig er mál með vexti að í fyrra fór ég með son minn til tannlæknis. Eldri sonur minn hafði farið sjálfur til sama tannlæknis fyrr um daginn og greiddi ég fyrir báða synina þetta síðdegi með vísakortinu mínu og skrifaði undir skuldfærslubeiðnina. Þegar heim var komið kom í ljós að maðurinn minn hafði sent eldri son minn með peninga. Við höfðum því greitt tannlæknaþjónustu fyrir þrjú börn en við eigum bara tvö börn þannig að þarna var viss forsendubrestur.

Næsta morgun hafði ég samband við tannlækninn og kom þá í ljós að það hafði orðið kerfishrun á tannlæknastofunni, tölvukerfið hafði hrunið og því hafði tannlæknirinn ekki séð að það var búið að greiða fyrir eldri son minn. Tannlæknirinn brást vel við og bakfærði 15 þúsund krónur á vísakortið mitt, leiðrétti sem sagt þessa færslu sem var til komin vegna forsendubrests og kerfishruns enda hafði ég aldrei fengið þessa þjónustu.

Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort ég eigi að telja leiðréttinguna fram á skattframtalinu og greiða af henni tekjuskatt. Ég þarf ekki langt svar, já eða nei dugar ágætlega.