138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

skattgreiðslur af skuldaniðurfellingu.

[10:55]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek nú fyrst fram að skattamál heyra ekki undir mig heldur hæstv. fjármálaráðherra sem er því miður ekki hér í dag. En ég hef auðvitað mínar skoðanir á þessum málum og það er von á frumvarpi sem skýrir þetta mál. Það er afskaplega skýrt í mínum huga … (Gripið fram í.) Jú, jú, svarið er alveg ljóst hvað varðar framtalsgerðina, hæstv. utanríkisráðherra, ríkisskattstjóri hefur sagt það með alveg skýrum hætti að lækkun lána af fjárhæð upphaflegs höfuðstóls (Gripið fram í.) er heimil og er ekki skattskyld. Það er grundvallarviðmið sem ég tel afskaplega skynsamlegt og ég held að við eigum að leggja til grundvallar, þ.e. að fjárhæð íbúðalána, sem hefur hækkað mikið vegna utanaðkomandi aðstæðna, vegna kerfishruns, eins og hv. þingmaður nefnir réttilega, en líka vegna gengishruns, sem er mjög mikilvægt að við gleymum ekki. Það er fjárhæð sem má þá færa niður af upphaflegri fjárhæð höfuðstóls án þess að það baki skattskyldu. Það finnst mér frekar skynsamleg útfærsla hjá ríkisskattstjóra. Ástæðan er sú að þarna varð hækkun og það varð tap, gengistap, sem leiðir til hækkunarinnar. Það er þá eðlilegt að það væri frádráttarbært ef það ætti að skattleggja niðurfærsluna. Ég held að þetta sé frekar einföld aðferðafræði, svona liggur þetta núna. Ég held að þetta sé aðferðafræði sem við eigum að byggja á áfram.

Hitt er svo aftur annað mál að það er illmögulegt að færa alla hluti aftur til baka því að þá þyrftum við eiginlega líka að færa gengi krónunnar upp og ég er ekki viss um að það sé hægt með handafli, ekki frekar en að niðurfærsla skulda sé algjörlega fær með handafli. Við getum tekist á við þetta með þessum besta hætti og ég held ekki að það eigi að skattleggja tjón fólks vegna gengishrunsins.