138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

úthlutun hjá Fjölskylduhjálpinni.

[10:57]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég kem hér upp til að gera að umtalsefni fréttir sem birtust í dagblaði í morgun um úthlutun hjá Fjölskylduhjálp Íslands. Að því er ég best veit fékk Fjölskylduhjálp Íslands 4 millj. kr. á fjárlögum þessa árs við afgreiðslu fjárlagafrumvarps í desember sl. Þar er vissulega unnið þarft starf eins og víða annars staðar í félagasamtökum og hjálparsamtökum um allt land, ég tala nú ekki um á erfiðum tímum eins og nú eru. En ég verð að segja eins og er, frú forseti, að mig rak í rogastans við að heyra að þar hefði verið tekin upp flokkun þeirra sem þangað koma. Flokkað er, að því er mér skilst, í tvo hópa, í einni röð standa Íslendingar, væntanlega þá með íslensk vegabréf og sönnun á heimilisfesti, og í hinni röðinni standa útlendingar sem búa á Íslandi.

Ég fæ ekki betur séð í fljótu bragði en að hér sé um grófa mismunun að ræða, aðskilnað sem dregur í huga mínum upp alla vega samlíkingar sem vekja með mér hroll. Ég vil spyrja hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra hvort hann hafi kynnt sér eða hvort hann muni kynna sér þetta mál og eiga þá orðastað við forsvarsmenn þessarar fjölskylduhjálpar. Ég get ekki séð að Alþingi Íslendinga, sem lagt hefur fé til þessarar starfsemi, geti við það unað að mannréttindi séu brotin á fólki sem býr hér á landi, eins gróflega og gert er samkvæmt þessum fréttaflutningi.