138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

sanngirnisbætur.

494. mál
[12:28]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil í lokin leyfa mér að þakka fyrir þá góðu umræðu sem farið hefur fram. Hún hefur verið þinginu til sóma. Ég er sannfærð um að það er ákaflega dýrmætt fyrir fyrrverandi vistmenn á Breiðavíkurheimilinu og öðrum þeim heimilum þar sem vistmenn sættu illri meðferð að finna þann samhljóm sem ríkt hefur í þessari umræðu, finna þá fordæmingu sem heyra má í ræðum þingmanna sem hér hafa talað vegna þeirrar illu meðferðar, ómannúðlegu meðferðar, sem vistmenn þar þurftu að sæta.

Það er fátítt að hjörtu þingmanna slái í takt í þeim málum sem við ræðum í þingsal en það hefur gerst á þessum degi. Hér tala þingmenn einni röddu sem einn maður og ég ítreka að það er þinginu til sóma.

Ég vil ítreka þakkir mínar fyrir samstarf við alla þá aðila sem komu að þeirri lausn sem finna má í þessu þingmáli. Ég ítreka þakkir mínar til Breiðavíkursamtakanna sem sérstaklega komu að málinu og beittu sér fyrir þeirri úrlausn sem hér er fengin. Ég vil taka undir það sem síðasti ræðumaður sagði, það er ekki síst vegna þeirrar baráttu sem þessi árangur hefur náðst. Það er ekki síst vegna þeirrar baráttu sem við sjáum fyrir endann á þessu máli, sjáum lokakaflann í þessari ljótu sögu barnaverndarmála á Íslandi.

Ég treysti því að málið verði afgreitt fljótt og vel í þinginu og verði kannski eitt af þeim fyrstu málum sem við sjáum afgreidd eftir páskahlé. Ég tel að það væri okkur öllum mikilvægt að afgreiða þetta mál fljótt og vel. Ég þakka þá góðu umræðu sem hér hefur farið fram.