138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

skuldavandi ungs barnafólks.

[13:37]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa umræðu og það að eiga frumkvæði að henni. Hún er mikilvæg. Ef taldir eru frá hópar sem við höfum alltaf horft til að gætu staðið tæpt í efnahagslegri niðursveiflu er alveg ljóst að barnafjölskyldur eru sá almenni hópur í samfélaginu sem upplifir afleiðingar þessarar dýfu líklega erfiðast. Saman fer mikil skuldsetning vegna þess að fólk er auðvitað að afla sér húsnæðis, húsnæðisþarfir eru í hámarki vegna barnafjölda og oft er tekjuöflunin ekki komin á það stig þar sem hún er mest á starfsævinni. Þegar svo fara saman blikur í atvinnuástandi, lækkandi laun almennt og mjög hækkandi verðlag sverfur auðvitað að.

Við höfum þess vegna lagt höfuðáherslu á aðgerðir sem gagnast ungum barnafjölskyldum framar öðrum. Ég held að það sé erfitt að finna þjóðfélagshóp sem bæri minna úr býtum af flatri niðurfellingu skulda en barnafjölskyldur vegna þess að flöt og jöfn niðurfelling allra skulda til allra þjóðfélagshópa mundi gagnast langmest þeim sem minnsta skuldabyrði hafa en það er algjörlega óljóst að slík aðgerð mundi duga til að koma barnafjölskyldum á þurrt.

Við höfum í fyrsta lagi lagt áherslu á greiðslujöfnun sem tryggir ungum barnafjölskyldum að hægt er að greiða af lánum í samræmi við þær forsendur sem lágu til grundvallar lántökunni. Á móti kemur að hámarki lenging lánstíma um þrjú ár. Þegar tekið er langt lán eins og í flestum tilvikum til 25 eða 40 ára er mjög gott boð að fólk geti greitt í samræmi við þær forsendur sem lagt var upp með. Greiðslujöfnunin tryggir núna 20% lægri greiðslubyrði en ella af verðtryggðum lánum, 30–40% af gengistryggðum lánum eftir því hvaða myntkarfa á í hlut. Við höfum tvöfaldað framlög til vaxtabóta sem eru á þessu ári alls 10 milljarðar kr. og hámarksvaxtabætur eru tæpar 40.000 kr. á mánuði. Síðan bætast við barnabæturnar sem við þekkjum og fer eftir fjölda framfærenda og tekjum hvernig þær leggjast niður en algengar eru þær á bilinu 20.000–40.000 á mánuði.

Sú aðferðafræði sem liggur þessari lausn til grundvallar er sú að mæta hinum raunverulega forsendubresti sem er auðvitað þegar fólk tekur gengistryggt lán upp á 80% fyrir íbúð árið 2007 og það lán er núna langt umfram veðrými eignarinnar. Tökum bara dæmi af ungu pari með eitt barn sem keypti íbúð á 30 millj. kr., skuldsetti sig eðlilega upp á 80% með gengistryggðu láni vegna þess að ekki var auðvelt að fá annars konar lán upp á 24 millj. kr. Eftir stendur að íbúðin er núna 25 millj. kr. virði en lánið er 60 millj. kr. 20% niðurfelling gerir ekkert fyrir þetta fólk. Það er nákvæmlega jafndautt eftir sem áður.

Greiðslujöfnunin sem gerir fólki kleift að borga í samræmi við þær forsendur sem lágu fyrir lántökunni í upphafi ásamt öðrum aðgerðum, svo sem tvöföldun vaxtabótanna, er eina úrræðið sem getur raunverulega mætt þörfum þessa fólks. Því til viðbótar leggjum við áherslu á að bankarnir komi skuldsetningu í eðlilegt horf og það er auðvitað byrjað að gerast að tekið sé tillit til þess hvert verðmæti hinnar eftirstandandi eignar er. Í tilvikum þar sem skuldabyrðin er raunverulega umfram það sem fólk getur risið undir erum við að leggja fram frumvarp um nýja greiðsluaðlögun þar sem einfaldað verður mjög ferli þess að fólk losni undan skuldabyrði sem það ræður ekki við og í fyrsta sinn lagt til grundvallar að raunverulegur framfærslukostnaður liggi til grundvallar ákvörðunum um niðurfærslu skulda þannig að ekki sé gert ráð fyrir að fólk borði tekex í 60 ár heldur verði raunveruleg framfærsluþörf fyrir barnafjölskyldur fyrir uppeldi barna lögð til grundvallar þegar ákvarðanir um greiðslugetu heimilis eru metnar.