138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

skuldavandi ungs barnafólks.

[13:48]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Hvað er ungt barnafólk? Ungt barnafólk er væntanlega margt menntað fólk, þetta er fólk sem er fullt af starfsorku, það er líka ómenntað fólk, fólk með hugmyndir, fólk í upphafi lífsskeiðsins, svolítið framtíð þjóðarinnar. Þetta er fólkið sem er skattgreiðendur framtíðarinnar, fólkið sem stendur undir velferðarkerfi framtíðarinnar. Það skilgreinir tap gagnvart viðfangsefninu sem við stöndum frammi fyrir núna ef við missum stóran hóp þessa fólks úr landi. Það hefur komið fyrir þjóðir í þessu ásigkomulagi.

Núna verðum við að horfast í augu við það að þessi hópur fólks stendur frammi fyrir einni grundvallarspurningu: Er það virkilega svo á Íslandi að það felist töluverð áhætta í því að kaupa sér íbúð á lánum, að það felist töluverð áhætta í því að kaupa sér bíl? Ef svar þessa hóps verður já um ókomna framtíð og ef ríkisstjórn Íslands í þessu ásigkomulagi getur ekki gefið fólki aðrar röksemdir en þær að svarið sé já, að gríðarleg áhætta sé fólgin í þessu, mun þetta fólk hugsa sér til hreyfings.

Fólki sem keypti á toppi eignabólunnar 2007 bjóðast núna hugsanlega tvö úrræði til að takast á við vanda sinn. Það getur farið í bankann og fengið leiðréttingu höfuðstóls á forsendum bankans, það getur farið greiðslujöfnunarleið sem er þess eðlis að hún getur komið í bakið á fólki síðar. Hin leiðin sem bankarnir bjóða upp á snýst um það að fara yfir í óverðtryggð vaxtakjör sem felur í sér mun hærri greiðslubyrði en fólk glímir við núna.

Stóra málið á Íslandi í dag er að búa til heilbrigðan, óverðtryggðan lánamarkað sem fólk getur leitað í eftir skuldaleiðréttingu (Forseti hringir.) og verið þess jafnan fullvisst að það sé framtíð á Íslandi og það sé hægt að kaupa bíla og íbúðir á Íslandi án þess að í því felist veruleg áhætta.