138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

skuldavandi ungs barnafólks.

[13:50]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni, kjördæmisbróður mínum, fyrir að hefja þessa mikilvægu umræðu. Ekkert er mikilvægara fyrir börn en að búa í öruggri umsjá fullorðins eða fullorðinna aðila sem búa þeim gott heimili. Um það eru opinberir aðilar meðvitaðir og ég man að í fyrrahaust þegar Ísland lenti á hliðinni og ég var í bæjarstjórn austur á Héraði var það fyrsta sem við hugsuðum: Hvernig getum við búið þannig um hnútana að atvinnumissir og tekjufall hinna fullorðnu bitni sem minnst á börnunum? Víða voru settar vaktir og búnir til verkferlar til úrlausnar.

Það er afar slæmt fyrir börn að finna að foreldrar þeirra séu áhyggjufullir og jafnvel kvíðnir vegna afkomu heimilis og öryggis þess. Þetta er stjórnvöldum ljóst og því hafa þau gripið til ýmissa aðgerða til að aðstoða þær fjölskyldur sem eiga á hættu að heimilisöryggi þeirra sé ógnað. Þar má nefna almennar aðgerðir, svo sem hækkaðar vaxtabætur og greiðslujöfnun, svo og sértækar aðgerðir eins og skuldaaðlögun, sem stýrt er af bönkunum, og greiðsluaðlögun sem stendur til að breyta úr dómsúrræði í félagslegt úrræði á næstu vikum með fulltingi nýs embættis umboðsmanns skuldara.

Hin nýja greiðsluaðlögun kemur til vegna þess að sértæka skuldaaðlögunin gengur ekki eins hratt fyrir sig og vonast var til og sýnir að stjórnvöld bregðast stöðugt við þörf sem myndast. Það er skelfilegt fyrir ungt fólk sem býr börnum sínum heimilisöryggi að upplifa hrun efnahagslífs með tilheyrandi breytingum á atvinnumöguleikum og tekjuöflun. En hrunið varð og því verður því miður ekki breytt með fingursmelli.

Mörg úrræði eru í boði en hinn stolti Íslendingur á oft erfitt með að biðja um aðstoð og kannski þurfum við að kynna úrræðin betur og á einfaldari hátt. Það er og verður vonandi áfram keppikefli þeirra sem stjórna þessum málaflokki að nýta það svigrúm sem til er fyrir þá sem mest þurfa á því að halda. Þar er ungt barnafólk svo sannarlega áberandi.