138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

skuldavandi ungs barnafólks.

[13:52]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Það er ljóst að þeir sem keyptu sitt fyrsta húsnæði á árunum 2005–2008 eru í mestum vandræðum. Þannig getum við séð að gengislán hjá fjölskyldu sem keypti sér íbúð árið 2005 á slíku láni hefur hækkað um 58% en íbúðin mun minna. Tökum dæmi af fjölskyldu sem keypti sér á verðtryggðu láni árið 2008. Launin frá því þá hafa hækkað um 12% en vísitala neysluverðs um 34%. Munurinn er 22 prósentustig.

Ungu barnafjölskyldurnar eru að kaupa sér húsnæði í fyrsta skipti. Upplýsingar frá Creditinfo benda til þess að aldurshópurinn 18–29 ára sé í langmestu vandræðunum. Þetta er jafnframt sá hópur sem er að öllu jöfnu með yngstu börnin. Sá hópur sem er í næstmestu vandræðunum er á aldrinum 30–39 ára, en sá hópur á líka flest börnin. Ef spár Creditinfos ganga eftir fjölgar mjög í þessum hópi, um meira en þriðjung á næstu 12 árum, og mest í yngsta aldurshópnum sem er með yngstu börnin.

Það verður að koma fram með úrræði handa ungu barnafólki sem byggir á öðru en nauðasamningum eins og nú er. Það verður að leggja áherslu á að lágmarka þann fjölda sem leita þarf nauðasamninga og það verður einungis gert með almennum aðgerðum.

Því er það sérstakt ánægjuefni að geta sagt frá því að hv. efnahags- og skattanefnd hefur að frumkvæði okkar sjálfstæðismanna tekið það frumkvæði að leita leiða til að setja fram almennar aðgerðir til lausnar (Forseti hringir.) skuldavanda heimilanna.