138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

skuldavandi ungs barnafólks.

[13:57]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félagsmálaráðherra og þeim þingmönnum sem tóku þátt í umræðunum. Þær voru að mínu mati góðar og gagnlegar og ég held að við séum öll á sama máli um að það þurfi á einhvern hátt að bregðast við þeim vanda sem nú blasir við. Engu að síður fannst mér félagsmálaráðherra gera heldur lítið úr vandanum. Tæplega 10.000 manns yngri en 39 ára eru atvinnulausir. Það er gríðarlega mikið.

Hæstv. félagsmálaráðherra talaði um að vaxtabætur hefðu verið tvöfaldaðar. Ég kannast ekki við það. Ég kannast við að þær hafi staðið í stað. Með þeim átti að fylgja frumvarp um að þær mundu nýtast betur tekjuminni fjölskyldum, en hvar er það frumvarp? Af hverju hefur það ekki verið lagt fram?

Síðan má segja að ríkisstjórnin hafi helst unnið sér það til afreks að hækka neysluskatta. Stefán Ólafsson hagfræðingur segir í erindinu frá árinu 2008 að neysluskattar leggist með hlutfallslega meiri þunga á fólk sem hefur lægri tekjur og ver þeim öllum í neyslu nauðþurfta. Þarna erum við að tala um ungt barnafólk.

Hæstv. félagsmálaráðherra kom inn á að 20%-tillaga okkar framsóknarmanna frá því fyrir ári mundi ekki gagnast öllum. Það er alveg hárrétt, hún gagnast ekki öllum enda höfum við líka viðurkennt það í dag að það þurfi að ganga miklu lengra. Við höfum líka bent á að ef ríkisstjórnin hefði tekið vel í þessar tillögur á sínum tíma og komið þeim til framkvæmda væri vandi ungs barnafólks miklu minni en hann er í dag.

Ég ætla mér ekki að gera lítið úr greiðslujöfnunartillögu ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) en hún leysir fólk ekki frá vandanum. Hann verður lengri og í rauninni má segja að hengingarólin verði umvafin bómullarhnoðrum. Fólk verður gjaldþrota, (Forseti hringir.) um það snýst málið og við köllum eftir tillögum, við köllum eftir aðgerðum og við köllum eftir því að (Forseti hringir.) gerð verði skýrsla sem skilgreinir vanda þessa fólks.