138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

skuldavandi ungs barnafólks.

[14:00]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa góðu umræðu sem var góð, upplýsandi og málefnaleg. Hv. þingmaður taldi að ég væri að gera lítið úr vandanum. Fátt er mér fjær í huga. Ég geri ekki lítið úr þessum vanda. Ég glími við hann á hverjum degi. Hann er fyrir augum okkar alla daga og við erum að takast á við hann eins og mögulega er hægt. Það er ekki hægt að halda að hægt sé að láta hann hverfa með einfaldri sjónhverfingu. Hann er viðvarandi viðfangsefni okkar vegna þess gengishruns sem varð og vegna þeirrar verðbólgu sem orðin er. Hann þarf að leysa sem og að það vantar 1 kr. af hverjum 5 í ríkiskassann eftir hrunið.

Hv. þm. Guðmundur Steingrímsson spurði hvort áhætta fælist í því að kaupa íbúð á lánum og hvort við værum kannski að senda þau skilaboð til fólks að ungt barnafólk ætti frekar að leita sér framtíðar annars staðar. Þetta er auðvitað hættan því að að mínu mati felst óásættanleg áhætta í því að taka lán til að kaupa sér íbúð á Íslandi í dag. Það er sú áhætta sem barnafjölskyldur á Íslandi eru að fást við afleiðingarnar af og hún er óásættanleg. Það er óásættanlegt að ætla fólki að axla byrðar af 80% skuldsetningu í verðtryggingu, 5% meðalverðbólgu og hrikalegum gengisbreytingum. Ef við ætlum að búa ungu barnafólki aðstæður hér verðum við að tryggja því sambærileg lífskjör, gengisstöðugleika og verðlag og í nágrannalöndunum. Þess vegna er íslenska krónan stærsta vandamálið sem við er að glíma. Þeir sem mæra íslensku krónuna öllum stundum verða að horfast í augu við að þessi staða er bein afleiðing hennar, (Gripið fram í: Það er atvinnuleysi …) skuldavandinn er bein afleiðing íslensku krónunnar. Þeir sem eru ánægðir með íslensku krónuna verða þá líka að segja að þeir séu ánægðir með skuldavandann.

Hv. þm. Ólöf Nordal spurði hver væri hin raunverulega staða og hverjir væru möguleikar okkar til að bregðast við. Við erum að hleypa af stað rannsókn núna og lagafrumvarp er væntanlegt sem greiðir fyrir stórfelldri rannsókn á stöðunni þannig að við höfum allar forsendur (Forseti hringir.) ljósar. Um leið og við höfum fjárráð til held ég að við ættum að hafa það sem forgangsverkefni að styðja sérstaklega (Forseti hringir.) þann hóp sem keypti á versta tímanum, seinast með viðbótarvaxtabótum. Það held ég að væri æskilegasti þátturinn sem við gætum gert. Ef við hefðum ráðrúm í ríkisfjármálum ætti sérstaklega að bæta myndarlega í vaxtabætur til þess fólks sem keypti seinast.