138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

hjúskaparlög, staðfest samvist o.fl.

485. mál
[14:09]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það er ekki oft sem það gerist að maður kemur í ræðustól Alþingis í þremur málum í röð og fagnar innilega en það gerist nú. Fyrst var á dagskrá mál um sanngirnisbætur í máli Breiðavíkurdrengja, svo aukin réttindi til glasafrjóvgunar og tæknifrjóvgunar fyrir einstaklinga og nú þetta mikla gleðimál. Svo ég fái að bregða fyrir mig enskri tungu er þetta „gay“ mál og gott að vera „gay“ í dag. Ég þakka kærlega fyrir það. Þetta er til þess gert að allir séu í reynd jafnir fyrir lögum, að misrétti sé eytt og jafnræði tryggt.

Saga samkynhneigðra hefur aldeilis ekki verið saga jafnræðis og sannarlega ekki heldur saga mannréttinda. Margir hafa liðið óbærilegar þjáningar, orðið fyrir ofbeldi, bæði andlegu og líkamlegu, og fært fórnir til að geta komið okkur á þennan stað sem við erum á í dag. Þessi saga er mjög merk og áhugaverð, og um leið og hún er saga kúgunar er hún líka saga hugrekkis og saga hetjanna, þeirra sem þora að standa upp einir á báti og berjast fyrir mannréttindum. Þetta er gleðidagur þeirra og okkar allra hér nú.

Sumir vilja meina að réttindabarátta samkynhneigðra hér heima sé í rauninni að ná endamörkum, að brátt muni allra síðustu múrar misréttis falla og full mannréttindi nást. En svo einfalt er það ekki af því að það að brjóta á bak aftur fjötra hugarfarsins, fjötra normsins og fjötra staðlanna er eilífðarverkefni, það er menningarlegt eilífðarverkefni löngu eftir að fullu lagalegu jafnrétti er náð.

Það er líka þannig að svo lengi sem einn einasti einstaklingur á Íslandi finnur til sársauka og vanmáttar fyrir sínar heitustu tilfinningar og dýpstu langanir er og verður verk að vinna. Það er og verður verk að vinna svo lengi sem eitt einasti foreldri finnur fyrir sorg og missi yfir hreinskilni og einlægni barnsins síns, samkynhneigð eða tvíkynja barnsins síns. Það er líka verk að vinna svo lengi sem einn einasti prestur á Íslandi og einn einasti biskup á Íslandi álítur ást fullorðins fólks, heit þess og trúnað vera einhvers konar ógnun við hið gagnkynhneigða hjónaband og brjóta í bága við kristilegan kærleika. Það er og verður verk að vinna. Jafnvel þótt fullu jafnræði menningarlega, félagslega, andlega og lagalega væri náð einn dag í málefnum samkynhneigðra er það á okkar ábyrgð að læra af sögunni og gleyma því aldrei að þegar einn hópur frelsast úr fjötrum sleggjudómasamfélagsins tekur einatt annar hópur útskúfunar við. Sérhver samtími skapar sér nýja jaðarhópa, annars konar ánauð og fersk fórnarlömb nýrra kynslóða. Ég verð að segja eins og er þótt það tengist ekki beint þessu máli, en þó, að mér brá einmitt mjög í brún þegar ég las Fréttablaðið í morgun og sá að það voru tvær raðir í Fjölskylduhjálp Íslands, önnur fyrir Íslendinga og hin fyrir útlendinga. Það er einmitt þetta sem við viljum ekki og það er einmitt með svona frumvarpi sem reynt er að tryggja að við séum öll jöfn fyrir lögum, í menningunni, í hugarfarinu og í hinum félagslegu verkum og gjörðum sem við stöndum frammi fyrir á hverjum degi.

Mig langar að beina örfáum orðum mínum til íslensku þjóðkirkjunnar og hvetja hana eindregið til að halda áfram því starfi sem hún hefur hafið við að vinna sig út úr eigin fjötrum og eigin fordómum og umfaðma í raun þau verk sem Kristur skildi eftir sig. Hvað gerði hann? Hann umfaðmaði minnihlutahópa síns tíma. Hann umfaðmaði konur, börn, fátæka og fatlaða. Það var ekkert sérstaklega í tísku. Þetta gæti haft þýðingu, ekki bara fyrir fólk á Íslandi heldur þurfum við ekki að líta lengra en til vina okkar og frænda í Færeyjum. Úti um allan heim er samkynhneigt og tvíkynhneigt fólk í fjötrum, í ánauð og jafnvel í lífshættu. Hjá okkar góðu vinum í Færeyjum er verk að finna og þar gæti íslenska kirkjan gengið fram fyrir skjöldu með góðu fordæmi og sýnt í verki að það er hægt að vera kristinn og líka umfaðma fjölbreytni, mannkærleika, ást samkynhneigðra og trúnað og heit fullorðins samkynhneigðs fólks. Ég er stolt af þessum þætti í menningu okkar á Íslandi, þ.e. að við getum sagt að við stöndum framarlega í þessum málum þegar við lítum til umheimsins. Það er sannarlega ekki á öllum sviðum, langt í frá, en hérna höfum við gengið fram fyrir skjöldu og við eigum að fagna þeim þætti í okkar menningu og okkar lagaumgjörð, þessari skýru réttarstöðu og þessari fjölbreytni og nota það sem einhvers konar tilefni til meiri mannúðar og raddar Íslands á alþjóðavettvangi. Það eru ekki bara þessi efnahagslegu gæði eða sterkur efnahagur sem eru grunnstoðir góðs samfélags, alls ekki. Það eru einmitt mál eins og þetta sem við fáum núna að fagna.

Áður hafa verið lagðar fram tillögur í svipuðum dúr. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir gerði það á sínum tíma og ég verð að viðurkenna að mig langaði mjög að gera þetta að mínu fyrsta þingmáli þegar ég kom inn á þing en ákvað að bíða vegna þess að ég vissi að ríkisstjórnin ætlaði sér að koma fram með þetta mál og ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra kærlega fyrir það góða og vandaða starf í þessu máli sem og mörgum öðrum. Þar hefur hún gengið mjög skörulega og vel fram og unnið að ýmsum réttarbótum. En það er ekki bara mikilvægt að þetta mál sé komið fram, heldur það sem er öllum minnihlutahópum svo mikilvægt og er svo áríðandi, að mál sem þetta sé þverpólitískt, þetta sé ekki mál einnar ríkisstjórnar, einhverra þingmanna eða einhverra flokka heldur mál okkar allra. Þar getur Alþingi líka sagt með góðri samvisku að það hafi gengið fram fyrir skjöldu á liðnum árum með góðum hætti í þessum efnum.

Við tölum oft illa um Alþingi sem er oft verðskuldað en í sumum málum hefur það staðið sig vel og þetta er eitt svið þar sem svo er. Lykillinn að því fyrir alla er að velja úr þessi manneskjulegu mál þar sem öllum ber skylda til að standa saman.

Ég áskil mér að sjálfsögðu rétt til að fara ofan í saumana á þessu þingmáli og sjá hvort einhverju verður þar við að bæta, en eins og ég segi fagna ég mjög og vona og treysti því að það verði unnið hratt og farsællega í þinginu og verði orðið að lögum fyrir sumarið. Þetta er stór stund fyrir okkur samkynhneigða, tvíkynhneigða og vonandi fyrir þjóðina og samfélagið allt. Hjartans þakkir.