138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

hjúskaparlög, staðfest samvist o.fl.

485. mál
[14:37]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er sannarlega ánægjulegt að taka til máls undir þessum lið um frumvarp til laga um breytingar á hjúskaparlögum og fleiri lögum og um brottfall laga um staðfesta samvist (ein hjúskaparlög). Sú sem hér stendur tók þátt í að fagna því þegar lög um staðfesta samvist voru samþykkt á þinginu 1996 og það er einkar ánægjulegt að standa hér í dag og fagna því að hringnum sé lokað varðandi réttindi samkynhneigðra og þá baráttu sem hefur farið fram á undanförnum áratugum.

Hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir fór áðan yfir mannréttindabaráttu samkynhneigðra í stuttu máli og minnti á hvílíkar fórnir fólk hefur þurft að færa fyrir kynhneigð sína, ofsóknir sem það hefur sætt, og fólk sem í dag um heim allan sætir ofsóknum og geldur jafnvel fyrir kynhneigð sína með lífi sínu. Ég tek undir með henni að þetta er eitthvað sem við megum aldrei gleyma og verðum að vera vakandi fyrir að er enn þá stórt vandamál þó að við séum hér og nú í þessu ríki að stíga þetta ánægjulega skref. Þetta er í samræmi við stjórnarsáttmála Samfylkingar og Vinstri grænna, þar er kveðið á um að komið skuli á einum hjúskaparlögum, enda er það í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar og alþjóðasamninga sem Ísland hefur skuldbundið sig til að fylgja um að vinna gegn misrétti á grundvelli kynhneigðar. Það er grundvallaratriði að allir einstaklingar heyri undir sömu löggjöf óháð kynhneigð sinni.

Mig langaði líka að koma upp og minnast baráttu á stjórnmálasviðinu fyrir baráttu samkynhneigðra. Að sjálfsögðu er mannréttindabarátta samkynhneigðra drifin áfram af þeim sjálfum og ýmsum sem hafa viljað berjast fyrir mannréttindum er síðan tókst að smita yfir á stjórnmálasviðið sem tekur alltaf töluverðan tíma.

Ég hef það fyrir víst, án þess að hafa fundið þess stað í þingskjölum en mun gera ítarlegri leit að því, að fyrst hafi málefni samkynhneigðra um ein hjúskaparlög komið til tals af hálfu þáverandi þingmanns Kristínar heitinnar Kvaran en hún sat á þingi fyrir Bandalag jafnaðarmanna. Samtök um kvennalista var fyrsti stjórnmálaflokkurinn sem var með málefni samkynhneigðra sýnileg á sinni dagskrá og mannréttindabaráttu þeirra. Þingsályktun var samþykkt á Alþingi 19. maí 1992 og 1. flutningsmaður hennar var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Þar var lýst yfir vilja til að tryggja jafnan rétt og jafna stöðu samkynhneigðra í samfélaginu. Á grundvelli þessarar ályktunar var stofnuð nefnd með fulltrúum frá dómsmálaráðuneyti, menntamálaráðuneyti, félagsmálaráðuneyti og hagsmunasamtökum samkynhneigðs fólks og sú nefnd lauk störfum haustið 1994 með útgáfu skýrslu um málefni samkynhneigðra. Þar var rætt um þau þrjú atriði sem væru hvað mikilvægust í að koma á úrbótum. Fyrst var þar að nefna fræðslu um samkynhneigð og hvernig uppræta mætti fordóma í þjóðfélaginu. Í öðru lagi um breytingar á refsilögum til að vernda samkynhneigða vegna aðkasts og misréttis. Og í þriðja lagi að meiri hluti nefndarinnar lagði til úrbætur til að veita samkynhneigðum í sambúð kost á að njóta réttarstöðu sem væri sambærileg við réttarstöðu hjóna. Nú erum við að ljúka þessu þriðja atriði, það er verið að mæla fyrir frumvarpi um það og vonandi nær það að verða að lögum fyrir lok þessa þings. Það má því segja að þessi nefnd hafi haft erindi sem erfiði. En mig langar þó að taka upp fræðsluna því að það er langt í frá að við höfum náð að vinna bug á fordómum gegn samkynhneigðum og tvíkynhneigðum þó að mjög hafi þokast og þar er fyrst og fremst að þakka samkynhneigðum og tvíkynhneigðum sjálfum. Besta dæmið um það er hinsegin gangan sem er hér alltaf í ágústmánuði og þessi hátíð er orðin stolt borgarbúa þar sem við fögnum margbreytileika og fögnum mannréttindum.

Næst erum við í stjórnmálayfirliti mínu komin fram til ársins 2006 en þá var það að áeggjan Guðrúnar Ögmundsdóttur sem fór fyrir miklu starfi og barðist hetjulega í því að fram kom bandormur sem fól í sér réttarbætur á staðfestri samvist. Þá var jafnframt í þeim lögum, sem var náttúrlega mikið áfangaskref, samkynhneigðum pörum heimilt að ættleiða börn samkvæmt ættleiðingarlögum og lesbískum pörum heimil aðstoð við tæknifrjóvgun samkvæmt lögum um tæknifrjóvgun. Ég minnist hér þessara þriggja kvenna því að mér finnst mikilvægt að halda því til haga að framlög einstaklinga geta haft gríðarleg áhrif þó að það taki tíma. Og af því að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir kom inn á það í ræðu sinni áðan að talað væri um að Alþingi væri alltaf að banna, hef ég satt að segja verið sorgmædd yfir þeirri umræðu þar sem hefur líka komið fram að einhverjum þyki óþarfi að Alþingi sé á þessum tímum að hugsa um nektardans. En mannréttindi eru grundvöllur að lýðræðissamfélagi og ef við teljum að vandræði Íslands í dag séu eingöngu komin til af því að einhverjir nokkrir hálfsiðlausir menn hafi farið óvarlega og einhverjar eftirlitsstofnanir aðeins brugðist er ég ósammála þeirra söguskoðun. Ég held einmitt að við höfum ekki verið vakandi yfir því að halda hér virku lýðræði. Við búum sannarlega í góðu lýðræðisríki en lýðræði er ekkert sem er sjálfgefið, það er eitthvað sem við þurfum að vera vakandi fyrir og tryggja að sé virkt og heilbrigt. Lýðræði er ekkert sem lifir af sjálfu sér. Mig langaði því að segja að bannið við nektardansi og bannið við vændi kemur að sjálfsögðu ekki til af tepruskap þingmanna heldur snýst það um að tryggja konum og börnum og ungum körlum, gjarnan, mannréttindi, tryggja þeim vernd fyrir því að þau neyðist ekki út í þá aðstöðu að þurfa að selja aðgengi að líkama sínum vegna erfiðra aðstæðna sinna og tryggja þeim vernd af hálfu ríkisvaldsins. Þess vegna er það engin tilviljun, frú forseti, að það er ríkisstjórn undir forustu hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur sem leiðir fram þetta frumvarp. Ég vil nota tækifærið og þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir þetta góða frumvarp og taka undir með hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur og þakka henni almennt fyrir ákaflega vel unnin störf í ráðuneyti dóms- og mannréttindamála.

Ég talaði aðeins um fræðslu af því að það er náttúrlega fræðsla sem kemur í veg fyrir fordóma. Og af því að kirkjan hefur verið rædd hér aðeins langaði mig til að segja kirkjunni til hróss, því að þegar Guðrún Ögmundsdóttir fór hér í gegn með bandorminn sinn var þjóðkirkjan ákveðin hindrun á þeim vegi en það var samt ákveðið að halda áfram og skilja eftir þá þætti sem lutu að þjóðkirkjunni, en ég vil þakka þjóðkirkjunni fyrir að hafa verið með málefnalega, opna og fræðandi umræðu um þessi mál og hafa síðan komist að niðurstöðu sem var í þá veru að kirkjan væri að sjálfsögðu líka kirkja samkynhneigðra.

Mig langar að beina því til allsherjarnefndar sem mun nú taka frumvarpið fyrir, því að ég tel að ég skilji það rétt hér að ef konur í hjónabandi eða sambúð fara í tæknifrjóvgun og sú sem ekki er frjóvguð gefur samþykki sitt, leiði það til þess að sú móðir sem ekki gengur með barnið verði sjálfkrafa foreldri þess án þess að til ættleiðingar þurfi að koma. Ég tel þetta mjög mikilvægt framfaraskref. En ég velti jafnframt fyrir mér af því að nú er það svo að ef kona sem er gift karlmanni eða í óvígðri sambúð skráðri með karlmanni eignast barn er það sjálfkrafa álitið barn sambýlismannsins eða eiginmannsins. Það kann vel að vera að út frá réttindum barna séu einhverjir annmarkar á því ef kona í sambúð með annarri konu verður ólétt án þess að það hafi verið vegna tæknifrjóvgunar, að sú kona sem ekki gengur með barnið teljist sjálfkrafa foreldri. En ég óska þó eftir að allsherjarnefnd skoði hvort það sama eigi ekki að gilda um sambúð og hjónaband tveggja kvenna eins og um hjónaband karls og konu í þessu samhengi, en þó að sjálfsögðu þannig að réttur barna til að vita hvert kynforeldri þess sé tryggður.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa mál mit lengra. Ég fagna því innilega að þetta frumvarp um ein hjúskaparlög sé komið fram á þingi og óska hv. allsherjarnefnd góðs gengis í vinnu með þennan fína bandorm.