138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

hjúskaparlög, staðfest samvist o.fl.

485. mál
[14:52]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég tek undir með öðrum hv. þingmönnum sem hér hafa tjáð sig, það er ástæða til að fagna því að þetta frumvarp er fram komið. Það er enn einn áfangi á þeirri leið sem samfélag okkar hefur verið á undanfarna áratugi, að viðurkenna í reynd, bæði í orði og á borði, jafnan rétt fólks, að ekki sé gerður greinarmunur á milli einstaklinga í þessu landi á grundvelli kynferðis, kynhegðunar eða neinna annarra þátta sem við hljótum öll að vera sammála um að sé óæskilegt, óréttlátt og ósanngjarnt að nota sem grundvöll einhvers konar mismununar.

Þau lög sem sett hafa verið nýverið og vísað er til í greinargerð frumvarpsins voru fyrst frá 1996, lög um staðfesta samvist, síðan lög frá árinu 2000, um breytingar á lögum um staðfesta samvist, síðan voru lög árið 2006 þar sem voru breytingar á lagaákvæðum er varða réttarstöðu samkynhneigðra og svo aftur lög frá 2008. Ég get sagt það fyrir hönd míns flokks, Sjálfstæðisflokksins, að hann hefur lagt áherslu á að ná fram þessum markmiðum. Þessi lög öll eru sett í ríkisstjórnartíð Sjálfstæðisflokksins, annars vegar á þeim tíma sem Sjálfstæðisflokkurinn var í ríkisstjórn með Framsóknarflokknum og hins vegar þegar hann var í ríkisstjórnarsamstarfi með Samfylkingunni. Ég held að um þetta mál sé mjög góð og breið pólitísk samstaða, enda snýr það að ákveðinni grundvallarhugsun sem ég hef þá trú að samfélag okkar grundvallist á, hugsjóninni um frelsi og jafnrétti. Það er í raun sami hluturinn, frelsi okkar til að haga lífi okkar með þeim hætti sem okkur hentar best, þó án þess að við sköðum aðra. Það verður að segjast eins og er að það er allt að því ómögulegt að sjá fyrir sér að kynhegðun fólks skaði aðra, þ.e. þegar um er að ræða fullorðna einstaklinga sem með fullu samþykki eiga samband sín á milli. Það er ekki hægt að sjá með nokkrum hætti að það geti komið öðrum við eða dregið úr frelsi annarra.

Hjónaband samkynhneigðra dregur ekki með nokkrum hætti úr möguleikum, rétti eða mikilvægi þess fyrir gagnkynhneigða að ganga í hjónaband. Þetta skiptir heilmiklu máli enda er það rétt, sem bent hefur verið á og er gert í greinargerð, að 65. gr. stjórnarskrárinnar tryggir að allir skuli vera jafnir fyrir lögum. Úr því að stjórnarskráin kveður svo fast að orði, eðlilega, gengur það ekki upp að það sé mismunun í lögum um hjúskaparstöðu byggð á kynhegðun fólks. Það er óeðlilegt og þess vegna fagna ég því að þetta frumvarp sé fram komið en bendi um leið á að það er í framhaldi af mörgum öðrum lögum sem sett hafa verið hér á undanförnum árum sem öll hafa stefnt í sömu áttina sem er sú að draga úr þeirri mismunun sem svo sannarlega var í samfélaginu.

Í sjálfu sér er ekkert meira um þetta mál að segja að svo komnu máli. Ég vil þó taka undir, af því að hér er um að ræða bandorm sem er flókinn, að það skiptir máli að allsherjarnefnd fari mjög vel í gegnum þetta mál þannig að við notum tækifærið núna, úr því að við erum að taka þetta mál inn, og náum alveg örugglega fram þeim markmiðum sem við setjum okkur með þessu frumvarpi þannig að ekki myndist einhvers konar skafankar eða lagaleg óvissa. Við erum að fást við svo viðkvæm mál sem snúa að einstaklingnum og því helgasta sem að honum snýr, sambúð og samskiptum við maka og börn, og hvernig um það er fjallað í lögum þarf að vera mjög nákvæmt. Ég skora því á nefndina að taka sér allan þann tíma og kalla inn alla þá sérfræðiþekkingu og álit sem nauðsynlegt er, aðallega á sviði þeirra lagabálka sem verið er að gera breytingar á, til að tryggja að við gerum engin mistök. Við gerum of oft mistök þegar við fáumst við svona bandorma. Hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir nefndi hér ágætt dæmi og ég er viss um að fleiri dæmi eru til í þessu máli sem við þurfum að skoða.

Enn og aftur, frú forseti, fagna ég því að þetta frumvarp er komið fram. Við munum síðan ræða það hér eftir að það hefur farið til nefndar og fara í gegnum þær breytingar sem frá nefnd koma.