138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

hjúskaparlög, staðfest samvist o.fl.

485. mál
[15:12]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U):

Virðulegi forseti. Ýmsar auðlindir standa íbúum jarðarinnar til boða. Margar af þessum auðlindum eru takmarkaðar og þarf að umgangast með mikilli virðingu, hvernig sem kann að takast til um það. En hluti af þeim auðlindum sem mannkynið hefur aðgang að eru ótakmarkaðar, síendurnýjanlegar og óþrjótandi. Auðlindir náttúrunnar, auðlindir jarðarinnar eru takmarkaðar, en það eru ekki auðlindir jarðarinnar, náttúrunnar, sem hafa komið mannkyninu á það þroskastig sem það stendur þó á í dag, það eru þær auðlindir sem búa í náttúru mannsins sjálfs sem gera mannkynið ríkt. Það eru auðlindir sem heita umburðarlyndi, kærleikur, hugmyndir um réttlæti og jafnrétti.

Á þessum tímum sem nú ganga yfir steðja að okkur efnahagsleg vandamál sem verða örugglega leyst fyrr eða síðar. Á þessum tímum er takmarkað fjármagn að finna til að leggja í ýmis augljós framfaramál en sem betur fer eigum við líka auðlindir þær sem ég minntist á áðan að ausa af til að gera líf okkar betra og fegurra og hamingjuríkara.

Það frumvarp sem hér liggur frammi og er sprottið upp úr auðlindum eins og umburðarlyndi, jafnrétti og lýðræði kostar ekki neitt í krónum og aurum talið en það skilar okkur áfram á framfarabraut og það er full ástæða til að gleðjast yfir þeim framförum. Óskandi væri að maðurinn sýndi auðlindum náttúrunnar í umgengni sinni við þær sömu varkárni, sparsemi og hófsemi og mannkynið virðist ævinlega temja sér þegar kemur að því að nýta þá orku til góðs sem býr innra með því. Það er því full ástæða til að gleðjast þegar athyglin beinist frá krónum og aurum yfir í hin raunverulegu verðmæti sem snúa að því hvernig við getum gert samfélag okkar betra, umburðarlyndara, sanngjarnara og hamingjusamara.

Það er dásamlegt að geta aukið rétt fólks án þess að þurfa að ganga á rétt eins eða neins. Með því að auka rétt samkynhneigðra þarf ekki að ganga á rétt þeirra sem gagnkynhneigðir eru. Með því að leyfa hjónabönd samkynhneigðra þarf á engan máta að setja kvóta á fjölda hjónabanda gagnkynhneigðra, takmarka lengd þeirra eða neitt í þá veru. Framfarirnar eru þarna, þær kosta okkur ekki neitt, þær kosta bara að við köstum af okkur þeim fjötrum hugarfarsins sem dingla um hálsinn á mannkyninu frá upphafi vega og það er fagnaðarefni þegar tekst að losna við einn af hinum þungu hlekkjum í þeirri keðju.

Ég vil þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir góða vinnu í sambandi við það stjórnarfrumvarp sem hér er fram lagt, svo og öllum sem hafa komið að gerð þess frumvarps og stuðlað að því að svona frumvarp yfirleitt væri unnið og lagt fram á Alþingi Íslendinga þar sem maður fær stundum efasemdir um í lok vinnudags um að maður hafi skilað nokkrum hlut sem hnikar þjóðinni í framfaraátt en maður hlýtur að gleðjast á degi eins og þessum þegar augljóst er að við stefnum í rétta átt og það kostar ekki neitt.