138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 127/2007 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

490. mál
[15:23]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Hér er á ferðinni eitt af þessum litlu málum sem sjaldnast vekja mikla eftirtekt hjá Alþingi en varða okkur þó mjög miklu, þ.e. það felur í sér innleiðingu á gerðum og tilskipunum í krafti EES-samningsins. Með þeirri þingsályktunartillögu sem hér er lögð fyrir Alþingi til fyrri umr. er ríkisstjórnin að leita heimildar til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, sem auðkennd er með númerinu 127/2007, um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn, en hann fjallar um umhverfismál, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um sleppingu erfðabreyttra lífvera út í umhverfið og sömuleiðis niðurfellingu á tilskipun ráðsins, sem auðkennd er 90/220/EBE, og auk þess sex ákvarðanir sem hver um sig felur í sér nánari útfærslu á einstökum efnisatriðum tilskipunarinnar.

Fyrstnefnda gerðin, þ.e. tilskipun 2001/18/EB, um sleppingu erfðabreyttra lífvera út í umhverfið og niðurfellingu á tilskipun ráðsins 90/220/EB, kallar á lagabreytingar hér á landi. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar var því tekin með stjórnskipulegum fyrirvara af hálfu Íslands. Þannig háttar hins vegar til að í íslenskum rétti er til lagastoð hvað varðar hinar gerðirnar sex og af þessum sökum mun ég einungis ræða í þessari stuttu framsögu efni þeirrar tilskipunar sem stjórnskipulegur fyrirvari var gerður við en læt duga að vísa til tillögunnar sjálfrar hvað efni hinna varðar.

Segja má að meginefni þessarar tilskipunar feli í sér mun ítarlegri málsmeðferðarreglur en eldri tilskipun gerði. Hins vegar er rétt að ítreka að þessi tilskipun felur ekki í sér þann tilgang að reyna að koma í veg fyrir sleppingu eða markaðssetningu lífvera sem hafa breyttar erfðir. Það sem án efa er mikilvægast í þessari tilskipun er að með henni er réttur almennings til að koma að þessum málum aukinn. Meginefni hennar kveður á um aukinn rétt fólks til aðkomu að málum áður en endanleg ákvörðun um veitingu leyfis er tekin. Í tilskipuninni felst ákveðin skylda til að tryggja samráð við almenning þegar kemur að undirbúningi allra ráðstafana á þessu sviði auk þess sem skýrt er kveðið á um að fræða skuli almenning um ráðstafanir sem verða gerðar vegna framkvæmdar á tilskipuninni. Það er ráðgert að hún verði innleidd með breytingum á lögum um erfðabreyttar lífverur sem hæstv. umhverfisráðherra hefur þegar lagt fyrir þingið. Í því frumvarpi er lagt til að nýr kafli bætist við þau lög sem fyrst voru samþykkt í tíð minni sem umhverfisráðherra á síðustu öld. Þessi kafli varðar upplýsingagjöf til almennings og sömuleiðis skapar hann almenningi rétt til að gera athugasemdir vegna umsókna sem fram koma um að setja á markað lífverur sem eru erfðabreyttar eða vörur sem innihalda þær.

Það má segja að áhrifin vegna innleiðingar þessarar tilskipunar séu þríþætt. Þeirra mun sem betur fer fyrst og fremst gæta hjá almenningi sem mun nú njóta aukins réttar til upplýsinga, sömuleiðis þess réttar að við hann sé haft samráð þegar veitt eru leyfi til að setja erfðabreyttar vörur eða lífverur á markað.

Í öðru lagi mun áhrifa tilskipunarinnar gæta svolítið hjá Umhverfisstofnun vegna þess að hún mun bera á öxlum sér skylduna til að veita almenningi upplýsingar. Sömuleiðis ber Umhverfisstofnun af hálfu stjórnvaldsins að efna til þess sem varðar umsóknir um leyfi til að sleppa eða setja á markað lífverur sem eru erfðabreyttar eða þá vörur sem innihalda þær og kemur til af þessari ályktun og þeim lögum sem stofnast til af frumvarpi hæstv. umhverfisráðherra. Það er rétt að geta þess enn fremur að þeim sem sækja um slíkt leyfi verður gert að framkvæma mat á þeirri áhættu gagnvart umhverfinu sem fylgir sleppingu eða markaðssetningu.

Þetta eru þau þríþættu áhrif sem munu vakna við innleiðingu þessarar tilskipunar.

Ég gat um það, frú forseti, í upphafi að þessi ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar kallaði á lagabreytingu í því tilviki sem ég hef hér rakið og þess vegna var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Þess vegna er með tillögunni verið að óska eftir því að Alþingi veiti samþykki sitt fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem felst í ákvörðuninni þannig að létta megi af hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg til, frú forseti, að þegar umræðu um þessa tillögu verður lokið verði henni vísað til umfjöllunar hjá hv. utanríkismálanefnd.